Gunnþór Ingva: Fólkið í Fjarðabyggð er gáfað

gunnthor_ingva_steingrimur_j.jpg

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að með frumvarpi um breytingu á fiskveiðistjórnun og veiðigjöldum sé verið að draga þann drifkraft úr íslenskum sjávarútvegi sem komið hafi honum í fremstu röð á heimsvísu. Hann vill að ríkisstjórnin fresti málinu fram á haustþing og kalli hagsmunaaðila til ráðagerða.

 

„Ég velti fyrir mér hvort við ráðherrann höfum lesið sömu álitgerðirnar. Við erum sammála um að það þarf að leysa málin, einkum þegar ég hef skoðað áhrifin sem þetta hefur á Fjarðabyggð og Síldarvinnsluna,“ sagði Gunnþór í ræðu sinni á borgarafundi um sjávarútvegsmál í Neskaupstað á þriðjudag. „Það þarf ekkert að slá ryki í augun á þessu fólki. Fólkið í Fjarðabyggð er gáfað.“

Fleiri austfirsk útgerðarfyrirtæki eru í hætti að mati framkvæmdastjórans. „Loðnuvinnslan má ekki við frekari skerðingu aflaheimilda Ljósafells og Gullberg ekki heldur.“

Gunnþór gagnrýndi tillögur ríkisstjórnarinnar um veiðigjaldið harðlega en honum finnst það of hátt. „Það verður að finna eðlilega og sanngjarna leið til að reikna gjaldið. Þessar tillögur eru það ekki.“
 
Höldum ekki áfram á þessum forsendum 

Hann tók dæmi af því hvernig ágóði ríkisins af 30 daga úthaldi Beitis á kolmunnaveiðum færi úr 53 milljónum í 86 á meðan hlutur Síldarvinnslunnar lækkaði úr 40 milljónum í 8,5. „Við munum ekki halda áfram að þróa Síldarvinnsluna á þessum forsendum, þið getið gleymt því!“ sagði Gunnþór áður en hann viðurkennir að kolmunadæmið væri „absúrd“ þar mjög dýrt væri að veiða fisktegundina.

Gunnþór spáir því að fjárfestingar hverfi í greininni sem leiði til úreldingar tækjakosts og lokum stöðnunar. „Allir munu tapa. Sjávarfrysting af og við leggjum Barðanum. Þar með tapast 30 störf,“ sagði hann og spurði svo: „Hvar eiga þeir sjómenn sem missa vinnuna að fá vinnu? Þeir geta ekki byrjað sjálfir því það er of dýrt að leigja kvóta.“

Markmiðin nást ekki með þessu frumvarpi 
 
Hann lýsti einnig yfir áhyggjum sínum á því valdi sem ráðherra væri færð við úthlutun kvóta. Hann óttaðist núverandi ríkisstjórn ekkert meir heldur en þær sem á eftir kunna að koma í þeim efnum. 

Hann sagðist reyndar hafa trú á að ríkisstjórnin gerði sér ekki vonir um að frumvarpið yrði samþykkt heldur hefði sett það fram svona til að ná málamiðlunartillögu nær sínum hugmyndum. Hann hvatti til þess að málinu yrði frestað til hausts og hagsmunaaðilar fengnir að borðinu í sumar.

„Markmiðin sem nefnd eru í frumvarpinu nást ekki eins og það lítur út í dag. Það er verið að taka þann drifkraft úr íslenskum sjávarútvegi sem komið hefur honum í fremstu röð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.