Fyrsta skóflustungan að langþráðum íbúðakjarna á Seyðisfirði

„Ég veit sem er að mjög margir bíða spenntir eftir að hafa möguleika á að breyta til með húsnæðið og allmargir hafa þegar haft samband og forvitnast um íbúðir í þessum nýja kjarna,“ segir Gunnhildur Helga Eldjárnsdóttir, formaður  Framtíðarinnar, félags eldri borgara á Seyðisfirði.

Stór stund var í dag á gamla knattspyrnuvellinum á Seyðisfirði þegar þar var tekin skóflustunga að nýjum íbúðakjarna við Garðarsveg sérstaklega fyrir eldri borgara í bænum en um alls átta íbúðir er um að ræða í þetta sinn. Mun þetta vera í fyrsta skipti í áratugi sem hafist er handa við byggingu íbúða fyrir eldra fólk í bænum en lengi hefur verið kallað eftir slíkum íbúðum í bænum. Vonir standa til að nýi kjarninn verði tilbúinn strax í mars á næsta ári ef áætlanir standast.

Það er Brák, húsnæðissjálfseignarstofnun í eigu sveitarfélaganna á landsbyggðinni, sem heldur utan um verkið en framkvæmdaraðili er Bæjartún hses, dótturfélag Hrafnhóls, sem einnig er að byggja íbúðir víða annars staðar á Austurlandi með sérstöku stofnframlagi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS.)

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, sagði að loks væri komið að því að koma til móts við óskir fjölmargra eldri borgara á Seyðisfirði með þessum framkvæmdum.

„Það er mikið fagnaðarefni að loks sé komið að því að reisa hér nýjar íbúðir fyrir eldri borgara því eftir því hefur mjög verið óskað af hálfu fólks hér í bænum. Það er lítið minna en stórkostlegt að frá og með næsta vori bjóðist eldri borgurum loks færi á að flytja sig um set ef þau svo óska svo ekki sé minnst á að uppbygging nýrra íbúða mun hafa jákvæð og góð áhrif á samfélagið hér á Seyðisfirði.“

Sigurður Garðarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hrafnshóls, sagði að á þessari vegferð hefðu ýmsir steinar verið í veginum um tíma en nú væri stóra stundin loks runnin upp og hann notaði tækifærið og óskaði Seyðfirðingum til hamingju.

„Þetta er búinn að vera langur vegur að þessu marki. Sem betur fer gekk þetta í gegn hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun nýlega og nú er þetta verkefni komið í nýtt félag sem heitir Brák sem er í eigu HMS og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Við hjá Hrafnshóli erum búnir að reyna í nokkur ár að ná lendingu með þetta verkefni, þetta var okkar fjórða tilraun sem nú gekk upp. Verkefnið er ekki einfalt. Það þarf að grafa verulega mikið hér á svæðinu til að hefja framkvæmdirnar en það ætlum við sannarlega að gera. Ég óska Seyðfirðingum til hamingju með að þetta hafi loks gengið upp.“

Sveitarstjórinn Björn Ingimarsson, Gunnhildur Helga Eldjárnsdóttir frá félagi eldri borgara og Sigurður Garðarsson, eigandi Hrafnhóls, að taka fyrstu skóflustunguna. Þess má geta að iðnaðarmenn voru á svæðinu og hófust handa við sína vinnu strax og formlegri athöfninni lauk. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.