Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum felld úr gildi: Einn virkjunarkostur í verndarflokki þarf ekki að útiloka aðra

Hæstiréttur dæmdi fyrir mánuði landeigendum Brúar á Jökuldal í við þegar hann felldi úr gildi friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Lögmaður landeigenda segir dóminn senda þau skilaboð að þótt búið sé að ákveða að vernda svæði sem tilheyrir einni virkjunarhugmynd þá þurfi það ekki að útiloka alla möguleika.

Dómurinn snýst annars vegar um lög um verndar- og orkunýtingaráætlun frá árinu 2011 sem mynda grunninn að því sem í daglegu kallast rammaáætlun, en heitir í raun þingsályktun um vernd og nýtingu orkunýtingarsvæða frá árinu 2013.

Með henni voru tveir virkjunarkostir í Jökulsá á Fjöllum, Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun færðir í verndarflokk. Þeirri ákvörðun var fylgt eftir af hálfu þáverandi umhverfisráðherra með friðlýsingu árið 2019.

Hún náði yfir allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum og farveg árinnar, í samræmi við skilgreiningar í fyrrnefndum þingsamþykktum um að virkjunarsvæði miðist við farveg neðan virkjunar en vatnasvæði ofan hennar. Á þessu svæði eru rannsóknir fyrir orkumannvirki bannaðar og allar virkjanir yfir 10 MW að stærð útilokaðar.

Friðlýsing alls svæðisins of íþyngjandi


Landeigendurnir kröfðust fyrst skaðabóta, sem ríkið hafnaði. Þeir kærðu þá ákvörðunina, fyrst til Héraðsdóms Austurlands sem úrskurðaði ríkinu í vil fyrir ári. Þaðan var sótt um leyfi til að kæra beint til Hæstaréttar, sem var veitt. Rétturinn klofnaði í afstöðu sinni, þrír dómarar skrifa undir dóminn sjálfan en tveir skiluðu saman sératkvæði.

Málatilbúnaður landeigenda byggir í grófum dráttum á að of langt hafi verið gengið í friðlýsingunni, hún sé íþyngjandi því með henni séu allir virkjunarkostir í Jökulsá á Fjöllum, sem Brú á land að, útilokaðir, ekki bara þeir sem tilgreindir hafi verið í rammaáætluninni. Þeir fóru því fram á ógildingu eða skaðabætur til vara.

Alþingi hefði átt að skilgreina landsvæði í vernd


Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að við friðlýsingar lands gagnvart orkuvinnslu felist almennar takmarkanir á eignaréttindum. Þær verði því að eiga sér skýra laga lagastoð í gegnum allt ferlið, hvíla á málefnalegum grunni, gæta að jafnræði og meðalhófi.

Hæstiréttur segir þingsályktanir aðeins vera viljayfirlýsingar Alþingis en ekki lög og geti því aldrei gengið þeim framar. Þau hafi því engin sérstök réttaráhrif. Með öðrum áfanga rammaáætlunar, það er þingsályktuninni frá 2013, eru aðeins virkjunarkostir tilgreindir en ekki það landsvæði sem þeim fylgir. Þess vegna hafi ráðherra ekki haft heimild til að friðlýsa svæðin heldur hefði verkefnisstjórn rammaáætlunar eða annar aðili þurfti að gera tillögu til Alþingis um landssvæðin sem ráðherra hefði síðan fylgt eftir.

Af hálfu ríkisins var byggt á að verkefnisstjórninni hefði aldrei verið ætlað að fylgja vinnu sinni lengra eftir, hins vegar hafi skylda myndast á ráðherra að gera það með þingsályktuninni. Það hafi verið gert í gegnum formlegt ferli og til þess bærar stofnanir verið fengnar til að mæla út og hnitsetja verndarsvæðið.

Körfum um vanhæfi hafnað


Landeigendur gerðu einnig kröfur um að ráðherra og forstjóri Umhverfisstofnunar yrðu dæmdir vanhæfir. Ráðherrann þar sem hann hefði í fyrra starfi sem framkvæmdastjóri Landverndar, lýst ánægju með verndina í rammaáætlun, forstjórinn fyrir að hafa sem slíkur setið í verkefnisstjórn áætlunarinnar. Hæstiréttur taldi báða hæfa. Ráðherrann því hann hefi ekki gengið lengra en eðlilegt gæti talist í að tjá sig í sínu starfi almennt um rammaáætlun og verið að framfylgja lýstri stefnu ríkisstjórnarinnar, forstjórinn þar sem stofnun hans var í ferlinu hvorki með umsjónar- né eftirlitsskyldu gagnvart verkefnisstjórninni.

Á móti vakti ríkið athygli á að landeigendurnir væru ekki réttir málsaðilar, þar sem aðeins væri um að ræða hluta þess hóps sem á land að Jökulsá á Fjöllum. Því var hafnað.

Þá bókaði Hæstiréttur að dráttur á meðferð málsins væri aðfinnsluverður. Gagnaöflun hefði verið lokið í byrjun nóvember 2020 og málið þá átt að ganga til aðalmeðferðar. Nýr dómari hefði tekið við málinu tveimur árum síðar en það samt ekki tekið fyrir fyrr en um miðjan mars 2023. Ríkið var einnig dæmt til að greiða málskostnað.

Huga þarf að takmörkun eignaréttarins


Í sératkvæðinu er tekið undir að ráðherra hafi heimild og skyldu til að friðlýsa svæðið út frá ákvörðun Alþingis, verkefnisstjórninni hafi aldrei verið ætlað að afmarka landssvæði sérstaklega. Þar er hins vegar komið inn á takmörkun eignaréttarins. Fjallað er um að stjórnvöld geti takmarkað eignarétt með skýrum og fyrirsjáanlegum lagaheimildum. Í þessu tilfelli sé álitaefni hvort Alþingi hafi skert réttaröryggi landeigenda með bindandi þingsályktunartillögu.

Ekki er þó gengið lengra í að fjalla um mögulegar skaðabætur þar sem meirihluti réttarins hafi þegar fallist á aðalkröfu landeigenda. Í dómi héraðsdóms frá í fyrra er meðal annars bent á að samþykktir Alþingis hafi tæknilega séð gert aðra virkjunarkosti óraunhæfa. Með friðlýsingunni hafi það verið formgert.

Rétt að fullkanna virkjunarkosti í vatnsfalli áður en það er allt friðlýst


Jón Jónsson, lögmaður hjá Sókn á Egilsstöðum, rak málið fyrir landeigendurna. Hann telur að dómurinn leiði til þess að aðferðafræðin við bæði gerð rammaáætlunar og friðlýsinga verði endurskoðar. „Ég tel að aðrar friðlýsingar, sem hvíla á sömu rammaáætlun,hljóti líka að falla úr gildi. Það þýðir að hægt er að kanna hvort aðrir virkjunarkostir eru fyrir hendi í þessum vatnsföllum.

Þar sem talað er um að endurskoða eigi rammaáætlun sé endurskoðuð á fjögurra ára fresti þá væri rökrétt að allir kostir væru endurmetnir á fjögurra ára fresti. Ég tel að hugsunin með lögunum hafi verið sú að þegar búið væri að fullkanna vatnsfall og sjá að í því væru engir virkjunarkostir sem væru umhverfislega tækir þá væri það friðlýst eftir skilgreiningu Alþingis.“

Hann segir að með dóminum og ógildingu friðlýsingarinnar sé málinu lokið af hálfu umbjóðenda hans en bætir við að þeir hafi haft hug á að kannaðir yrðu áfram „skynsamlegir virkjunarkostir“ í ánni. Nú sé boltinn hjá stjórnvöldum, einkum umhverfisráðuneytinu, um nánari viðbrögð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.