Skip to main content

Frekari rannsóknir þarf til að kortleggja útbreiðslu myglu í Eskifjarðarskóla

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jan 2023 18:09Uppfært 12. jan 2023 18:15

Endurnýja þarf að minnsta kosti einn útvegg og þak á íþróttahúsi Eskifjarðar til að uppræta myglu í húsinu. Bæði þar og í grunnskólanum þarf að taka fleiri sýni til að komast til botns í hversu víða mygla hefur vaxið og hvað gera þurfi til að hreinsa hana út.


Þetta kom fram í máli sérfræðinga Eflu sem sátu íbúafund sem haldið var um ástand húsanna á Eskifirði í gærkvöldi. Þar fóru Böðvar Bjarnason og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir yfir þá vinnu sem unnin hefur verið. Mygla hefur verið staðfest í báðum byggingum.

Þau útskýrðu að til að finna og kortleggja myglu í byggingum dygði ekki að taka eitt sýni, hvert sýni endurspeglaði í raun aðeins þann punkt sem það væri tekið á. Þess vegna þyrfti að taka sýni víða til að fá heildstæða mynd og jafnvel nokkrum sinnum til að uppræta hana.

Böðvar sagði að í við sýnatökur í desember hefði athyglin beinst að svæðum sem væru illa farin og rakavandamál verið sýnileg. Farið var í sýnatökurnar eftir að leka varð vart í rigningum í haust. Til þessa hefur grunur einkum beinst að frárennsli frá þaki íþróttahússins sem er steypt inn í veggina. Böðvar sagði að ekki hefði reynst mygla í þeirri súlu sem lekið hefði í haust.

Spónaplötur settar fyrir glugga

Stóra vandamálið er í suðurvegg íþróttahússins. Á honum voru áður gluggar en þeir virðast hafa verið huldir með spónaplötum þegar aðstaða fyrir starfsfólk grunnskólans var byggð þar hinu megin við. Böðvar sagði að svo virtist sem gluggaglerið væri enn á sínum stað, miðað við gler sem kom í ljós í sýnunum. Hann sagði tvö sýni af því svæði hafa „litið mjög illa út.“

Ekki fannst mygla annars staðar í íþróttahúsinu þótt fleiri sýni væru tekin, meðal annars úr öðrum veggjum og gólfdúk. Böðvar sagði að rífa þyrfti dúkinn af til að kanna hvort mygla leyndist undir honum en þar er steypulag yfir gamalli sundlaug. Eins þurfi að skoða kjallara hússins. Hann sagði það góðs viti að ekki hefði fundist mygla í steypu hússins þótt það útilokaði ekki önnur svæði en þau sem skoðuð voru.

Böðvar sagði að slípa þyrfti upp veggi hússins og múra þá upp á nýtt. Til að komast að undirstöðum hússins þarf að rífa upp gólfdúkinn. Þá þarf að setja nýtt þak á húsið þar sem afrennsli verði fært út fyrir veggina. Ekki sé hægt að gera við það sem steypt sé inn í.

Stofa 10. bekkjar tekin úr notkun

Hvað skólann sjálfar varðar þá var stofa 10. bekkjar tekin úr notkun í haust vegna gruns um myglu. Þar fannst mygla í gólfi og veggjum. Við hana gengur gamall útveggur upp úr þaki þannig að stallur myndast sem lekur meðfram. Þar fannst raki. Stofan hefur nú verið lokuð af. Undir stofunni er afgreiðsla og fundarherbergi. Þar voru tekin sýni úr þaki og gólfi sem flest reyndust sýkt.

Böðvar og Sylgja Dögg sögðu að þó þessi sýni hefðu sýnt myglu væri of snemmt að fullyrða að allur skólinn væri myglaður. Ástæða sé þó að fara í ítarlega skoðun, meðfram öllum útveggjum og oprýmum og upp í loft og þök þar sem hægt er. Sérstaklega mikilvægt sé að skoða svæðin sem líti verst út. Þar nefndi hann dúk meðfram útvegg þar sem útfellingar sjáist.

Þau útskýrðu að við leit að myglu sé kannað á teikningum hvar lagnir liggi eða líkur séu á að raki geti safnast fyrir. Kjarni er síðan tekinn úr vegg eða gólfi og greindur í smásjá. Stundum er tekið ryksýni sé það til uppsafnað, en það geti sagt sína sögu um hvort mygla hafi verið í viðkomandi húsnæði.

Nánari skoðun eftir rúman mánuð

Áætlað er að sérfræðingar Eflu komi aftur austur um mánaðamótin febrúar/mars til frekari sýnatöku. Eftir það taki um mánuð að skrifa skýrslu fyrir Fjarðabyggð til að byggja á ákvarðanatöku sína um framkvæmdir.

Á fundinum kom fram að þar sem búið væri að taka íþróttahúsið úr framkvæmd væri ekkert sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að byrja að rífa innan úr því. Slíkar aðgerðir auðveldi sýnatöku næst.

Böðvar og Sylgja Dögg röktu hvernig mygla er upprætt í húsum. Þar sem agnirnar eru ekki endilega lífræn duga ekki efni sem drepa lífverur, heldur þarf að fjarlægja og skipta út fyrir betra byggingarefni. Þörf geti verið á fleiri sýnatökum á framkvæmdatíma til að uppræta mygluna að fullu. Þau vöruðu þó við að það fólk sem viðkvæmast er fyrir myglu geti áfram fundið til einkenna, sama hversu langt verði gengið.

Aðspurð svaraði Sylgja Dögg um þær myglugerðir sem fundist hefðu í húsunum að þær væru einkennandi fyrir þau svæði sem mikill raki sé. Ekki nógu mikið sé vitað um mismunandi gerðir myglu til að hægt sé að segja til um áhrif þeirra á fólk heldur verði að fást við rakaskemmdir.

Minnisblað frá úttekt Eflu var lagt fyrir mannvirkja- og veitunefnd Fjarðabyggðar í gær og fundað með starfsfólki skólans og íþróttahússins fyrir íbúafundinn. Jón Björn Hákonarson sagði að rýmin sem myglan fannst í yrðu ekki notuð frekar á þessu skólaári. Þá væri unnið að því að tryggja verktaka til framkvæmda þannig hægt yrði að fara á fullt í skólahúsnæðinu þegar skólastarf færi í sumarfrí. Loftræsting skólans sé látinn ganga allan sólarhringinn og starfsfólki boðið upp á læknisskoðun.

Stofa 10. bekkjar á Eskifirði hefur verið lokuð af eftir að þar fannst mygla.