Orkumálinn 2024

Fjórir milljarðar króna í uppbyggingu fjögurra veiðihúsa

Áformað er að þrjú ný veiðihús á Norðausturlandi og stækka það fjórða á vegum verkefnisins Six Rivers, sem fjármagnað er af breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, á næstu misserum. Verkefnið yfirtekur nú starfsemi sem áður tilheyrði Veiðiklúbbnum Streng.

Ný veiðihús verða byggð við Miðfjarðará í Bakkafirði, Hofsá og Vesturárdal í Vopnafirði auk þess sem byggt verður við núverandi veiðihús við Selá. Í tilkynningu segir að þau verði af bestu gæðum.

Áformin voru kynnt á blaðamannafundi í Reykjavík. Fram kemur að uppbyggingin kalli ekki á frekari jarðakaup.

Vonast til að auka ferðaþjónustu á svæðinu

Verkefnið Six Rivers snýst um vernd landsvæðis og sex áa á svæðinu, einu fárra svæða þar sem Norður-Atlantshafslaxinn dafnar enn. Það er gert með að grafa hrogn fengin úr laxi úr hverri á hvert ár, byggðir laxastigar til að opna fiskinum ný uppvaxtarsvæði og efla gróðurfar í nágrenninu til að auka fæðuúrval fisksins.

Fjármagn til verndar og rannsókna kemur frá Ratcliffe og tekjum verkefnisins af sölum veiðileyfa. Öllum veiddum laxi er sleppt og þannig rennur allur ágóði til verndarstarfsins. Six Rivers er óhagnaðardrifið og stefnt að því að það verði sjálfbært í tekjum til verndarstarfsins í framtíðinni.

Bygging veiðihúsanna er skref í þá átt en þau eiga að laða að laxveiðimenn hvaðanæva að. Þess er að auki vænst að þau fjölgi störfum á svæðinu og laði að frekari fjárfestingu í þjónustu við ferðamenn á Norðausturlandi.

„Framkvæmdirnar sýna á skýran máta markmið okkar um verndun Norður-Atlantshafslaxins í ánum á Norðausturlandi. Með byggingu veiðihúsa af bestu gerð á þessum afskekkta hluta landsins vonumst við til að búa gestum okkar einstaka reynslu við stangveiðar. Tekjurnar af þeirri starfsemi gagna svo til fjármögnunar áframhaldandi verndarstarfs,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Project.

Kynna rannsóknir í haust

Veiðihúsin verða í eigu Six Rivers. Veiðifélögin á svæðinu bera ekki af þeim kostnað en allir eiga að njóta góðs af uppbyggingunni. Verkefnið hefur nú yfirtekið alla starfsemi sem áður tilheyrði Veiðiklúbbnum Streng. Samkvæmt svari við fyrirspurn Austurfréttar snertir þessi breyting hvorki eigna- eða veiðirétt annarra í ánum og hefur því lítil áhrif á heimamenn.

Þá hefur heimasíða verkefnisins, www.sixrivers.is, verið endurnýjuð. Á henni má, auk almennra upplýsinga um verkefnið og veiðileyfi, lesa um framvindu rannsókna við árnar sem Hafrannsóknastofnun, Háskóli Íslands og Imperial College í Lundúnum sjá annast.

Í tilkynningunni segir að rannsóknirnar verði nánar kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu um verndun og stöðu Norður-Atlantshafslaxins sem ráðgerð er í Reykjavík í september. Þar kemur saman hópur heimsþekktra sérfræðinga á sviði verndarstarfs og ræðir leiðir til að snúa við hnignun Norður-Atlantshafslaxins á grunni hátæknivöktunar og mælinga á laxinum í ám Norðausturlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.