Fjarðarheiðargöng fyrst í nýrri samgönguáætlun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2023 12:29 • Uppfært 13. jún 2023 11:09
Göng undir Fjarðarheiði eru fyrst á dagskrá samkvæmt sérstakri jarðgangaáætlun sem fylgir nýrri samgönguáætlun fyrir árin 2024-38 sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti í hádeginu. Bið verður á að haldið verði lengra áfram eftir það. Framkvæmd við flugvöllinn á Egilsstöðum, Lagarfljótsbrú og við Suðurfjarðaveg eru einnig á dagskrá í samgönguáætluninni.
Til stóð að áætlanirnar yrðu lagðar fyrir Alþingi nú í vor en af því varð ekki vegna snarpra þingloka. Ráðherra kynnti hins vegar tillögur sínar á fundi í dag auk þess sem þær eru aðgengilegar í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnafrestur um þær er til 31. júlí.
Nýmælið í áætluninni er sérstök jarðgangaáætlun til næstu 30 ára. Lögð er til forgangsröðun næstu tíu jarðganga á Íslandi auk fjögurra kosta sem skoða á frekar.
Fjarðarheiðargöng eru þar efst á lista en síðan koma göng um Siglufjarðarskarð og önnur göng undir Hvalfjörð. Göng frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð, sem loka myndu hringtengingu mið-Austurlands, eru númer sjö í röðinni. Göng undir Lónsheiði, Hellisheiði eystri og Berufjarðar- og Breiðdalsgöng eru meðal þeirra fjögurra gangakosta sem skoða á nánar.
Í tilkynningu ráðneytisins segir að stefnt sé að allir gangakostirnir komi til framkvæmda á næstu 30 árum. Sett eru fram áform um árlega fjárfestingu, utan fjárhagsramma upp á 12-15 milljarða í jarðgangagerð fram til 2038. Fjármögnunin er hluti heildstæðrar endurskoðunar tekjuöflunar af farartækjum og umferð sem verkefnastofa á vegum innviðaráðuneytis og fjármálaráðuneytis vinnur að. Alls er gert ráð fyrir að 909 milljörðum verði varið í samgöngur á næstu 15 árum, fyrir utan sem kynna að verða fjármögnuð með samvinnuverkefnum.
Af öðrum helstu atriðum sem tæpt er á í tilkynningunni og varða Austurland má nefna að Suðurfjarðavegur og Lagarfljótsbrú eru talin upp meðal stórframkvæmda í vegakerfinu. Útrýma á einbreiðum brúm á Hringveginum og fækka þeim um alls 79 í vegakerfinu. Leggja á slitlag á 620 km sem eru malarvegir í dag og huga að göngu-, hjóla- og reiðstígum.
Eins og Austurfrétt greindi frá í gær samþykkti Alþingi fyrir þinglok að taka upp sérstakt varaflugvallargjald. Það á að nota í framkvæmdir á flugvöllunum á Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík. Á Egilsstöðum á að byggja upp flughlað og akbraut en í Reykjavík endurbyggja flugstöðina. Samhliða aukast framlög til viðhalds flugvalla um allt land.