Fjarðabyggð dæmd til að greiða slökkviliðsmanni bætur vegna brottvikningar

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur verið dæmd til að greiða fyrrum slökkviliðsmanni 4,5 milljónir fyrir að hafa ekki staðið rétt að brottrekstri hans úr starfi. Stjórnendur sveitarfélagsins sögðu manninn hafa gerst sekan um langvarandi og gróft einelti. Dómari taldi það ekki sannað þótt margt hefði mátt betur fara í samskiptum.

Manninum var sagt upp störfum í júlí 2019 að undangenginni athugun þáverandi bæjarstjóra og bæjarritara á ásökunum um einelti af hálfu mannsins.

Tvær konur höfðu þá kvartað undan hegðun mannsins. Sú fyrri kvartaði undan kynbundnu áreiti og einelti strax í byrjun árs 2018 en hugðist þá reyna að taka á málinu sjálf. Mál hennar kom aftur inn á borð stjórnenda nokkru síðar. Þá var haldinn fundur með henni og manninum sem lauk á því að þau tókust í hendur en svo fór nokkru síðar að hún hætti störfum.

Vorið 2019 óskaði hún liðssinnis Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Athugasemdir þaðan virðast hafa hrundið aðgerðum sveitarfélagsins af stað.

Í febrúar það ár hafði önnur kona sent inn sambærilega kvörtun vegna mannsins. Samkvæmt dómi mótmælti hann ásökunum hennar en baðst afsökunar á sáttafundi. Konan var færð á aðra vakt en virðist það ekki hafa komið í veg fyrir að þau hittust reglulega í vinnunni sem olli henni vanlíðan. Í samantekt til sveitarfélagsins í júní 2019 taldi hún til tólf atriði svo sem lítilsvirðing, hunsun, stöðugt baktal og að útkallsfatnaður hennar hefði farið falinn.

Sérfræðingar og stjórnendur taka út starfsanda

Samskiptavandi innan slökkviliðsins virðist hafa verið stjórnendum þess og sveitarfélagsins ljós um nokkurn tíma þannig að í ársbyrjun var fyrirtækið Forvarnir ehf. fengið til að skoða ástandið. Í úttektinni kemur fram að þótt meirihluti slökkviliðsmannanna væru ánægðir í vinnu sinni ríkti samskiptavandi, svo sem vantraust og baktal, milli vakta.

Eftir að málin komust á skrið sumarið 2019 var annað fyrirtæki fengið að borðinu sem meðal annars skoðaði sérstaklega samskipti fyrrnefndu konunnar og slökkviliðsmannsins. Niðurstaða þess var að framkoma hans hefði verið ófagleg og óásættanlegt þannig hún hefði upplifað fordóma og niðurlægingu vegna kyns síns en ekki væri hægt að fullyrða um að um einelti hefði verið að ræða.

Þá var úttekt stjórnenda sveitarfélagsins lokið. Niðurstaða þeirra var að maðurinn hefði gerst sekur um gróft kerfisbundið einelti. Rætt var við fleiri slökkviliðsmenn sem báru að maðurinn hefði sýnt fleira samstarfsfólki niðurlægjandi framkomu. Niðurstaða stjórnendanna var því sú að andinn á starfsstöðinni væri slæmur og yrði ekki bættur með slökkviliðsmanninn á staðnum. Fór svo að honum var sagt upp störfum og annar slökkviliðsmaður áminntur.

Eineltið ekki sannað

Slökkviliðsmaðurinn nýtti sér strax rétt sinn til andmæla og skilaði meðal annars greinargerð þar sem atriðunum tólf sem seinni konan hafði talið til var hafnað. Hann höfðaði síðan mál vegna brottrekstrarins í byrjun síðasta árs.

Fyrir dómi gerði maðurinn athugasemdir við að sveitarfélagið hefði brotið gegn kjarasamningi og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með að gefa honum ekki áminningu fyrst og færa ekki nægar sönnur á að um einelti hefði verið að ræða. Með samskiptamál sveitarfélagsins í skoðun hjá sérfræðingum hefði hann átt að fá tækifæri til að bæta ráð sitt. Maðurinn krafðist 12,8 milljóna í bætur annars vegar 11,3 milljónir vegna brottrekstrarins og hins vegar 1,5 milljóna í miskabætur.

Að hálfu sveitarfélagsins var því haldið fram að manninum hefði gefist fullt tækifæri til að bæta ráð sitt. Eineltið væri langvarandi og gróft brot gegn starfsskyldum mannsins.

Í héraðsdómi Austurlands er að mestu tekið undir málflutning mannsins um að Fjarðabyggð hafi ekki sýnt fram á að maðurinn hafi sýnt af sér ofbeldi eða einelti þótt ýmislegt hefði mátt betur fara í samskiptum hans við samstarfsfólk. Sveitarfélagið hefði því átt að beita vægari úrræðum en brottrekstri. Réttindi hans hefðu ekki verið virt og þar með brotið gegn bæði kjarasamningi og stjórnsýslulögum.

Dómurinn dæmdi því Fjarðabyggð til að greiða manninum 4,5 milljónir i bætur en hafnaði kröfu um miskabætur. Þá þarf sveitarfélagið að greiða 1,9 milljónir í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.