Finnafjarðarverkefnið er það mikilvægasta

Framkvæmdastjóri þýska hafnafyrirtækisins Bremenports segist hafa mikla trú á framgangi stórskipahafnar í Finnafirði. Áfangasigur sé unnin með samningum sem undirritaðir voru um verkefnið á fimmtudag.

„Við höfum unnið lengi að þessu verkefni og náum nú þessum merka áfanga. Síðustu vikur hafa verið spennandi.

Að samningunum standa fjórir aðilar með alls fimm lögfræðinga. Þess vegna þurftum við tíma! Það var hins vegar gott að hafa þá því það er ekki auðvelt að útbúa slíkan samning.“

Þetta sagði Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports við undirritun samninganna á Þórshöfn á fimmtudag. Samningarnir eru á milli sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps, verkfræðistofunnar Eflu og Bremenports. Stærsta atriðið í þeim er stofnun þróunarfélags, sem verður að 2/3 í eigu Bremenports, sem sér um markaðssetningu og öflun fjárfesta fyrir verkefnið.

Forsetinn skýrði myndina

Áætluð fjárþörf í næsta áfanga er fimm milljónir evra, eða hátt í 700 milljónir íslenskra króna. „Með þessari undirritun erum við búin að ljúka fyrsta áfanga verkefnisins. Við vonumst til að geta hert á þróunarferlinu í næsta áfanga sem tekur 3-5 ár,“ sagði Robert.

Howe sagðist hafa heyrt af verkefninu 2010 en Bremenports farið að skoða það af alvöru 2012. Opinber heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands, til Bremen sumarið 2013 ýtti enn frekar undir vinnuna.

„Hann dró upp fyrir okkur ákveðna mynd sem var besta leiðin til að sjá hvað gerst getur á þessu svæði. Ég sé vænlega framtíð fyrir höndum á þessu svæði. Þess vegna gleðst ég yfir að við getum unnið saman næstu ár, áratugi og sennilega næstu 100 ár.“

Bremenports er að fullu í eigu Brimarborgar. Aðalstarfsemi þess snýst um hafnirnar í Bremen og Bremerhaven en það hefur líka komið að verkefnum til að mynda í Kína, Grikklandi, Indlandi, Grænhöfðaeyjum og Sýrlandi. „Við erum í verkefnum um allan heim en þetta er það mikilvægasta,“ sagði Howe.

Breytingar í kjölfar loftslagsbreytinga

Í tilkynningu frá Bremenports segir að samningarnir feli meðal annars í sér sameiginlegan skilning allra samkomulagsaðila að verkefnið geti tekið meira en 40 ár. Þá er kveðið á um að kostnaður við mannvirkjagerðina hvíli alfarið á sérleyfishöfum, en ekki sveitarfélögunum. Eins eru ákvæði um ganga þurfi frá samningum um tengingar mannvirkja sem sérleyfishafarnir reisa við vegi, orkunet og samskiptalínur íslenska ríkisins.

Samningarnir skilgreina bæði höfn og svæði í kringum hana til ýmissar athafnastarfsemi. Um er að ræða um 1200 hektara svæði með sex kílómetra langan hafnarkant. Í tengslum við höfnina þarf síðan að skilgreina tollfrjálst svæði fyrir starfsemina sem væntanlega felst að miklu leyti í umskipun vara frá Asíu til annað hvort austurstrandar Bandaríkjanna eða Evrópu.

„Loftslagsbreytingar munu leiða til efnahagslegrar þróunar á þessu svæði. Það skiptir máli fyrir heiminn að sú þróun byggi á ströngustu mælikvörðum sjálfbærni. Það skiptir líka máli fyrir bæði okkur og hina íslensku samstarfsaðila að hafnarskipulagið í Finnafirði verði á öllum stigum lagað að ströngum umhverfiskröfum,“ er þar haft eftir Robert.

Í annarri tilkynningu sem send var íslenskum fjölmiðlum er haft eftir honum að staðsetning hafnarinnar í Finnafirði breyti alþjóðasiglingaleiðum til frambúðar og geti leitt til verulegs umhverfisábata þar sem styttri siglingaleiðir þýði minni útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Bremenports leggi mikið upp úr umhverfismálum og höfnin muni byggjast alfarið upp á forsendum „greenport“ aðferðafræðinnar, umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.