Enn beðið lokaniðurstöðu í sorphirðukærum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. mar 2025 18:05 • Uppfært 04. mar 2025 18:07
Enn er beðið eftir endanlegri niðurstöðu í málarekstri UHA Umhverfisþjónustu fyrir kærunefnd útboðsmála gegn sveitarfélögunum Múlaþingi og Fljótsdalshreppi vegna sorphirðuútboðs þeirra síðasta sumar. Sveitarfélögin hafa til þessa haft betur í kærumálunum.
UHA hefur alls lagt inn fjórar kærur til nefndarinnar vegna útboðsins. Tveimur málanna er lokið, úrskurður kominn í því þriðja en ekki fullnaðarákvörðun og það fjórða er enn til meðferðar.
Sveitarfélögin auglýstu um miðjan júní í fyrra eftir nýjum vertaka í sorphirðu og rekstur móttökustöðva. Sett voru skilyrði, meðal annars að verktakar hefðu meðmæli frá öðrum opinberum aðilum og gætu sýnt fram á traustan rekstrargrundvöll.
Meðan útboðið var enn í gangi kærði UHA skilyrðin um að verktakar hefðu tveggja ára reynslu af sambærilegum verkum og meðmæli frá minnst tveimur opinberum aðilum. Það fór einnig fram á að Íslenska gámafélagið (ÍGF) sem annaðist sorphirðuna áður yrði útilokað frá útboðsferlinu þar sem það hefði haft óeðlilega aðkomu að undirbúningi útboðsins.
Múlaþing, sem hélt utan um útboðið fyrir sveitarfélögin bæði, hafnaði því að ÍGF hefði veitt ráðgjöf við vinnslu útboðsgagnanna. Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði þann 20. september sveitarfélögunum í vil um að þau hefðu fullan rétt á að krefjast gagna frá bjóðendum sem sönnuðu að þeir gætu uppfyllt faglegar kröfur.
Taldi að UHA hefði aldrei ætlað sér að skila meðmælum
Tilboð voru opnuð 22. júlí. Þann 16. ágúst var UHA tilkynnt af Múlaþingi að tilboð fyrirtækisins hafði verið metið ógilt þar sem meðmælabréfið vantaði. UHA brást við með nýrri kæru. Við það stöðvaðist samningsgerðin sjálfkrafa.
Þar kærði UHA að sveitarfélögin hefðu úrskurðað tilboðið ógilt á þeim forsendum að meðmælin vantaði. Það hefði átt að teljast minniháttar galli tilboðs og sveitarfélagið því átt að gefa því tækifæri á að lagfæra það.
Kærunefndin svaraði að bjóðendur bæru ábyrgð á tilboðum sínum. Hún taldi í ljósi fyrri kæru UHA að sveitarfélögin hefðu verið í rétti til að álykta að UHA ætlaði sér ekkert að skila meðmælunum og því ekkert kallað eftir þeim.
UHA skilaði síðar meðmælum sem voru dagsett eftir að útboðsfrestur rann út. Kærunefndin segir það engu breyta heldur skapa efasemdir um að UHA hafi verið með slík gögn tilbúin sem gleymst hafi að senda. Þá hefðu sveitarfélögin brotið lög ef þau hefðu talið tilboðið gilt á grundvelli slíkra gagna. Kærunefndin hafnaði því kröfum UHA, sem fólu meðal annars í sér ógildingu útboðsins. Úrskurðurinn féll 2. desember.
Þarft að sorphirðan komist af stað
Þriðja kæran var lögð fram 16. október. Þá kærði UHA samningsgerð sveitarfélaganna við Kubb. Af gögnum málsins má ráða að sveitarfélögin hafi farið af stað í samningsgerð strax eftir fyrsta úrskurðinn. Niðurstaðan varð skammtímasamningur í nóvember.
UHA gerði bæði við samningsgerðina sjálfa sem og Kubbi hefði verið heimilað að leiðrétta einingaverð í tilboði sínu. Múlaþing svaraði að mistökin hefðu verið augljós og öðrum bjóðendum verið heimilað það einnig.
Kærunefndin gaf út ákvörðun í málinu 2. desember. Með henni var stöðvun samningsgerðar aflétt og samdægurs var gengið frá fullnaðarsamningum við Kubb. Í niðurstöðu segir að þótt ákvörðun um að leyfa Kubbi að leiðrétta tilboðið kynni að vera ólögmæt, þá öðlaðist UHA, sem þegar hefði verið dæmt úr leik með ógilt tilboð, engan rétt í ferlinu.
Sveitarfélagið var talið eiga brýna hagsmuni af því að sorphirðan kæmist af stað, sem sem kunnugt áttu kærumálin sinn þátt í miklum töfum á henni sem náðu fram í janúar. Málið bíður enn endanlegs úrskurðar.
Fjórða kæran er enn til meðferðar en þann 14. nóvember kærði UHA gerð tímabundinna samninga um sorpþjónustu á milli sveitarfélaganna og Kubbs.
Samkvæmt upplýsingum frá kærunefndinni um miðjan febrúar liggur ekki hvenær úrskurðað verður í þeim málum sem eftir eru.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.