„Bókstaflega rigndi steinum og sandi yfir allt“

Félagar úr Björgunarsveitinni Vopna á Vopnafirði höfðu í nógu að snúast í gær uppi á Möðrudalsöræfa þar sem einhver hundruð vegfarenda þurftu aðstoð. Rúða sprakk í bifreið sveitarinnar.


„Það var töluverður erill hjá okkur uppi á Möðrudalsheiðinni við þjóðveginn en í bænum sjálfum þurftum við ekkert að hafa okkur í frammi,“ segir Hinrik Ingólfsson, formaður björgunarsveitarinnar, en hópur frá þeim hafði í nógu að snúast síðdegis í gær og fram á nótt.

Bæjarbúar sjálfir sluppu ótrúlega vel við veðurofsann um helgina því ekkert kom þar upp á að sögn Hinriks sem segir reyndar að þetta hafi að mestu verið á við hressilega haustlægð en ekki þessi ofsastormur sem aðrir í fjórðungnum hafi þurft að eiga við.

„Það kom ekkert til okkar kasta í bænum heldur eingöngu uppi á fjöllum en þar var ástandið líka ægilegt. Mér telst til að við höfum aðstoðað einhver hundruð manna. Meðal annars komum við að stórum hóp bíla sem komust hvergi og í þeim mörgum voru rúður farnar að brotna vegna steinkasts sem var mikið þegar verst lét. Við urðum sjálfir fyrir slíku þegar rúðu í okkar bíl sprakk skömmu eftir að við komum þangað upp eftir.“

Hinkrik segist ekki vita til neinna alvarlegra slysa vegna veðursins en segir að allnokkrir þeirra sem þeir komu að hafi fengið einhverjar skrámur eftir að bílrúður brotnuðu og sandur og grjót þeyttist inn í bílana.

„Það bókstaflega rigndi steinum og sandi yfir allt á stóru svæði en við náðum engu að síður að flytja alla á öruggan stað. Margir af þeim ferðamenn sem voru eðlilega í geðshræringu vegna veðurofsans. En allt fór þetta vel.“

Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar fyrir ofan þjóðveginn á Möðrudal frá því fyrr í morgun. Þar er hitastig nú vel undir frostmarki og vindur enn um 15 metrar á sekúndu þegar þetta er skrifað.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.