Ekkert sem bendir til að berklasmit á Fáskrúðsfirði hafi breiðst út
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. mar 2025 11:48 • Uppfært 24. mar 2025 11:50
Smitrakning vegna berklasmits sem kom upp á Fáskrúðsfirði fyrir tveimur vikum er langt komin. Ekki eru vísbendingar um annað en tekist hafi að ná utan um smitið. Framkvæmdastjóri lækninga segja alla sem hlut hafa átt að máli hafa tekist á við málið af mikilli ábyrgð.
Þann 12. mars síðastliðinn greindi Heilbrigðisstofnun Austurlands frá því að smitrakning væri hafin eftir að berklasmit greindist á Fáskrúðsfirði. Eyjólfur Þorkelsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, segir að rakningin sé núna langt komin og alls hafi sýni verið tekin úr hátt í 50 einstaklingum.
Enn sem komið er sé ekkert sem bendir til að smitið hafi breiðst út og því útlit fyrir að tekist hafi að ná utan um það. Rakningu er hins vegar ekki fulllokið þar sem greining á berklasmiti er flókin. Einkenni geta verið margvísleg og fara þarf yfir röntgenmyndir auk þess sem blóðprufur eru sendar suður til Reykjavíkur til greiningar.
Hægt að bera berklabakteríuna ævilangt
Annað sem flækir rannsóknina er að ólíkt þeim smitsjúkdómum sem Austfirðingar hafa tekist á við síðustu ár, það er að segja Covid og mislinga, getur meðgöngutími berkla verið áratugir. Eyjólfur bendir á að ætlað sé að þriðjungur mannkyns beri með sér berklaveiruna en aðeins lítið brot þeirra þrói með sér sjúkdóm og veikindi.
„Hafi menn smitast sjást þess merki í blóðprufum ævilangt. Þess vegna er ekki þar með sagt að einstaklingur sem greinist jákvæður nú hafi smitast nýverið,“ útskýrir Eyjólfur.
Berklar ekki sama lýðheilsuógnin og í kringum 1900
Berklar ollu hvað mestum skaða á Íslandi í upphafi 20. aldarinnar. Með bættum lifnaðarháttum þjóðarinnar og nýjum lyfjum hafa þeir nánast horfið. Undanfarin 30 ár hafa um 10 tilfelli greinst hérlendis á ári. Eyjólfur segir að þegar komið fram fram undir aldamót hafi berklar helst komið upp hjá eldra fólki sem smitaðist af bakteríunni sem börn og hún síðan náð sér á strik þegar ónæmiskerfið tók að gefa eftir, í einhverjum tilfellum þannig að hún smitaðist til annarra í kring.
Berklum hafi hins vegar lengi fylgt mikill ótti, enda hafi þeir dregið ungt fólk til dauða á sínum tíma og aðgerðir gegn þeim, svo sem einangrun á sérstökum hælum, verið grimmar. Sjúkdómurinn hafi einkum þróaðist meðal þeirra sem af einhverjum sökum stóðu hallari fæti í samfélaginu og þess vegna hafi honum í gegnum tíma fylgt talsverðir fordómar.
Málið nálgast af skynsemi og ábyrgð
En þótt berklar séu ekki nærri sú ógn sem þeir voru fyrir rúmum 100 árum þá er þeim enn mætt af krafti, enda geta þeir verið einkum börnum á leikskólaaldri hættulegir. „Þetta er sjúkdómur sem við viljum koma í veg fyrir og þess vegna heyra greining og meðferð undir sóttvarnalög sem þýðir að ríkið greiðir allan þann kostnað,“ útskýrir Eyjólfur.
Berklar eru lífsseig baktería. Einstaklings sem greinist með svokallað huldusmit, bakteríu sem ekki hefur valdið sjúkdómi, bíður fjögurra mánaða sýklalyfjameðferð. Lengri meðferð með fleiri lyfjum bíður einstaklings með smit. Til viðbótar hafa síðustu áratugi komið fram fjölónæmir berklar, bakteríur sem fjöldi lyfja virkar ekki á.
Eyjólfur segist ekki geta tjáð sig um líðan einstakra skjólstæðinga HSA. Hann segir hins vegar að allir þeir aðilar sem komið hafa að málinu, hvort sem er um er að ræða fólk með bakteríuna, það sem var útsett fyrir henni eða vinnustaðinn þar sem smit kom upp hafa nálgast málið af „fádæma samviskusemi og ábyrgð“ sem beri að þakka fyrir.