Deilt um jarðgangakosti á þingi SSA
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. okt 2023 11:47 • Uppfært 13. okt 2023 12:01
Snarpar deilur urðu um ályktanir um jarðgangamál á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Kveikjan varð þegar oddviti Sjálfstæðisflokksins úr Fjarðabyggð vildi fella út rannsóknir á göngum milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar.
Oddvitinn, Ragnar Sigurðsson, hefur undanfarnar vikur talað fyrir því að forgangsröðun jarðganga á Austurlandi verði breytt þannig að frekar verði göng milli Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur eða Suðurfjarðagöng en frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð.
Ragnar lagði fyrst fram tillögu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar sem fékk ekki framgang þar. Þá lagði hann fram þingsályktunartillögu um Suðurfjarðagöngin þegar hann tók sæti sem varamaður á Alþingi skömmu fyrir SSA þingið.
Í þeim jarðganga- og samgönguáætlun sem til þessa hafa verið lagðar fram af samgönguráðuneyti eða Vegagerðinni hafa göngin um Mjóafjörð verði næst á eftir Fjarðarheiðargöngum. Þar hefur ekkert verið um Suðurfjarðagöngin.
Frávísunartillaga naumlega felld
Samkvæmd fundargerð haustþings SSA lagði Ragnar fram breytingartillögu í umræðum um ályktanir þingsins á seinni degi þess. Hún fólst í að taka út setningu um að leggja áherslu á að göngin um Mjóafjörð verði hönnuð samhliða vinnu við Fjarðarheiðargöng heldur yrði í staðinn talað um að stöðugt sé unnið að undirbúningi samgöngubóta þannig að hönnun og rannsóknum sé lokið í tíma.
Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA og oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Múlaþings lýsti sig andvíga tillögunni því með henni væri möguleg hringtenging á Austfjörðum slitin í sundur. Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í Múlaþingi, bar upp frávísunartillögu á breytingartillöguna.
Frávísunartillagan var naumlega felld, níu voru á móti henni, átta með en fimm sátu hjá. Breytingartillagan var líka felld, fjögur atkvæði voru með henni, fjórir sátu hjá en 17 voru á móti. Upphafleg tillaga frá stjórn SSA var loks samþykkt óbreytt með 21 atkvæði. Þrír voru á móti og einn sat hjá.
Skoða Suðurfjarðagöng
En samgönguumræðunum var ekki lokið. Ragnar lagði til að breyta tillögu um heilsárveg um Öxi og endurgerð Suðurfjarðaveg á þann hátt að bætt yrði við setningu um að skoðað skyldi hvort skynsamlegra væri að gera göng um Suðurfirði frekar en endurbyggja veginn, að því gefnu þó að það myndi ekki seinka þeim framkvæmdum sem þar eru áformaðar.
Ragnar lýsti þeirri skoðun sinni að hringtenging Austfjarða verði ekki kláruð að loknum Fjarðarheiðargöngum. Göngin um Mjóafjörð eru næst á dagskrá í núgildandi jarðgangaáætlun en í þeirri sem liggur fyrir Alþingi þessa dagana eru þau komin neðar á lista. Ragnar sagði brýnna að tengja Suðurfirði og Vopnafirði við miðsvæðið en fara í hringtenginguna.
Skiptar skoðanir voru meðal þeirra þingfulltrúa sem tóku til máls um hvort þessi tillaga myndi setja Suðurfjarðaveginn í uppnám. Í grófum dráttum virðast fulltrúar Fjarðabyggðar hafa verið jákvæðari fyrir að skoða hana en fulltrúar Múlaþings frekar varað við að hún kynni að verða til trafala.
Berglind Harpa var meðal þeirra sem viðhöfðu varnaðarorð en Helgi Hlynur sagði að um væri að ræða mál Fjarðabyggðar og kvaðst reiðubúinn að styðja tillöguna gegn því að allir fulltrúar Fjarðabyggðar væru sammála.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og gestur þingsins, var meðal þeirra sem tóku til máls í umræðunni. Hún sagðist ekki taka afstöðu í málinu en benti á vinnu sem hefði verið unnin gagnvart Suðurfjarðavegi. Hann væri kominn inn áfangaskiptir á samgönguáætlun og skoða þyrfti orðalag tillögunnar með það í huga. Þá vakti hún þeirri staðreynd að eftir annað tímabil samgönguáætlunar verði nær allar þær einbreiðu brýr sem eftir verða á Hringveginum á Austurlandi.
Að lokum fór svo að tillagan var samþykkt samhljóða með breytingum Ragnars.