Deilt um breytingar á starfskjörum í grunnskólum Múlaþings
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. apr 2023 14:48 • Uppfært 27. apr 2023 14:50
Hluti almenns starfsfólks grunnskóla Múlaþings hefur látið í það skína að það muni ekki mæta til vinnu á þriðjudag vegna óánægju með hvernig sveitarfélagið ætlaði að standa að breytingum á starfskjörum. Stéttarfélag fólksins telur það geta litið svo á að einhliða breyting á hluta ráðningarsamnings jafngildi uppsögn. Sveitarfélagið hefur síðan dregið ráðninguna til baka en ekki hafa allir fallist á það. Sveitarstjóri furðar sig á viðbrögðunum sem hann segir byggð á misskilningi en Múlaþing vilji ekki standa í stríði við starfsfólk sitt.
Múlaþing tilkynnti í lok janúar um breytingar á starfskjörum almenns starfsfólks grunnskóla, svo sem stuðningsfulltrúa og skólaliða. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, segir að breytingunum hafi verið ætlað að bregðast við ákvæðum í kjarasamningum um styttingu vinnuvikunnar. Þær hafi byggt á leiðum sem önnur sveitarfélög, til að mynda Fjallabyggð, hafi farið í sátt.
Málið snýst meðal annars um daga þar sem ekkert skólastarf er í gangi og ekki gerðar kröfur um vinnuskyldu en starfsmennirnir fengið greidda, svo sem milli jóla og nýárs. Björn segir fjallað um þessa daga í kjarasamningum kennara en ekki þeim kjarasamningum sem hópurinn sem um ræðir vinnur eftir. Misjafnt sé milli sveitarfélaga hvort krafist sé vinnuframlags þessa daga.
Þessari aðferðafræði hefur AFL Starfgreinafélag, sem þorri starfsfólksins tilheyrir mótmælt. Í frétt á vef félagsins frá í gær segir að ekki sé hægt að segja upp hluta ráðningarkjara nema með því að segja starfsmanni upp og bjóða honum að vinna áfram á lægri kjörum. Þess vegna geti starfsmaður litið svo á að tilkynningin um breytingarnar hafi falið í sér uppsögn og um mánaðamótin sé þriggja mánaða uppsagnarfrestur liðinn.
Ætluðu ekki að skerða laun
Breytingin á vinnufyrirkomulaginu átti að taka gildi frá og með næsta skólaári, eða 1. ágúst. Björn segir að hún eigi ekki að skerða laun starfsfólks. Aðspurður um hvort það sé ekki kjarasamning að þurfa að vinna daga sem áður hafi verið frídagar svarar hann að ekkert í kjarasamningunum kveði á um rétt starfólks til frís þá daga sem um ræði.
Múlaþing og AFL með fulltingi lögfræðinga Alþýðusambands Íslands, fyrir hönd starfsfólksins, hafa tekist á um þessar túlkanir síðustu mánuði. Þeim var skotið til samstarfsnefndar Sambands íslenska sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins. Í henni sitja þrír aðilar frá hvorum aðila. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni samkvæmt þeim línum og skilaði ekki niðurstöðu.
Í tilkynningu AFLs frá í gær er sagt að Múlaþing hafi sett „Íslandsmet í starfsmannastjórnun án atrennu“ og í samtali við Austurfrétt í dag sagði formaður félagsins, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, að hvert klúðrið hefði rekið annað í málarekstri Múlaþings.
Ekki áhuga á að standa í stríði við starfsfólkið
Björn talar á móti um að ráðstafanir sveitarfélagsins hafi verið „mistúlkaðar eða misskildar“ sem orðið hafi til þess að starfsfólkið hafi fengið skilaboð sem ollu „úlfúð og óánægju sem ekki var hægt að rétta úr.“ Ekki hafi tekist að rétta úr henni og þess vegna hafi verið ákveðið að draga breytingarnar til baka og í framhaldinu standi til að setjast betur yfir málið með skólastjórnendum og starfsfólki. Björn bætir við að sumum skólum Múlaþings hafi enginn ágreiningur orðið um fyrirhugaðar breytingar en þær þó alls staðar verið dregnar til baka.
„Viðbrögð AFLs hafa komið okkur á óvart. Við höfum engan áhuga á að berja þetta mál áfram í ósátt eða ætlað að vera með ofsa gagnvart starfsfólki. Þegar ljóst var að þetta væri túlkað sem uppsögn ákváðum við að draga málið til baka frekar en halda því áfram. Það stendur,“ segir hann.
Geta ekki hætt við einhliða
Af hálfu AFLs er staðan ekki svo einföld. Stéttafélagið telur Múlaþing ekki geta bakkað á þennan hátt út úr málinu, með einhliða tilkynningu, því við uppsögn rofni ráðningarsamband. Í frétt þess segir að starfsfólki hafi í gær fengið orðsendingu um að mæti það ekki til vinnu á þriðjudag verði litið á það sem brotthlaup úr vinnu en við slíku liggi viðurlög, jafnvel fjársektir. Hjördís Þóra segir að ef starfsfólkið mæti á þriðjudag sé það á þeim forsendum að kjör þess séu óbreytt. Í frétt félagsins segir að félagsfólki sem lendi í aðgerðum eftir helgina verði veitt aðstoð.
Af hálfu Múlaþings er hins vegar litið svo á að sætti starfsfólk sig ekki við stöðuna þurfi það sjálft að segja upp og þá virkist hefðbundinn uppsagnarfrestur. „Það er skýrt og ég trúi ekki öðru en fólk átti sig á því,“ segir Björn.
Stéttarfélagið ekki boðað á starfsmannafundi
Ljóst er að samskipti deiluaðilanna eru stirð. AFL sakar forsvarsfólk Múlaþings um að hafa ekki veitt upplýsingar og hafnað óskum starfsfólks um að fá fulltrúa frá AFLi á kynningarfundi. Hjördís Þóra segir Múlaþing ekki hafa viljað tala við AFL og reynt að halda því utan við málið. Hún segir einkennilegt að hindra stéttarfélagið í að mæta á slíka fundi. Björn svarar að trúnaðarmenn verkalýðsfélaga sitji fundi sem skólastjórnendur haldi með starfsfólki, það sé hlutverk þeirra að fara með upplýsingar á milli og þeir hvattir til að mæta. Forsvarsfólk stéttarfélaga hafi aldrei verið boðað á slíka fundi.
Breytingin nær til um 70 starfsmanna, ríflega 50 þeirra eru í AFLi en flestir hinna í Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA). Ekki fengust upplýsingar í dag um hversu margir þeirra líti svo á að uppsögnin standi og ætli ekki að mæta eftir helgi. Inni í þessari tölu er ekki starfsfólk með tímabundna ráðningu, aðeins fyrir þetta skólaár. Þess vegna segir Hjördís Þóra að áformaðar breytingar hafi áhrif á mun fleiri.
Áfram fundað um málið
Austurfrétt hefur spurnir af foreldrum með áhyggjum enda í hópnum stuðningsfulltrúar sem hjálpa börnum með sérþarfir. Þótt stirt sé milli deiluaðila verður áfram leitað lausnar. Björn segir stjórnendur fræðslusviðs funda með skólastjórnendum í dag og eftir því sem Austurfrétt kemst næst eru fundur í deilunni fyrirhugaður á morgun.
„Ég veit að það eru áform um að upplýsa starfsfólk eins og unnt er um stöðuna. Það er búið að senda þeim að breytingarnar væru felldar niður. Þar stendur málið en ég vænt þess að á næstu vikum og mánuðum þurfi stjórnendur og starfsfólk að vinna málið áfram. Það hefur aldrei verið meiningin að taka ákvörðun og valta yfir starfsfólkið en við viljum leysa verkefnið um styttingu vinnuvikunnar á svipuðum nótum og náðst hefur í flestum öðrum sveitarfélögum,“ segir Björn að lokum.