Condor hætt við flugið í sumar

Þýska flugfélagið Condor hefur fallið frá áformum sínum um beint flug til Akureyrar og Egilsstaða í sumar. Stefnt er að því að reyna aftur að ári en það skýrist nánar á næstu vikum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Fljúga átti vikulega á hvorn stað frá Frankfurt frá miðjum maí fram í október. Mikið púður hefur verið sett í markaðssetningu vegna þessa af hálfu heimafólks sem vonast er til að nýtist að ári.

„Því miður gekk verkefnið með Condor ekki upp í ár en við bindum vonir við að af millilandaflugi milli Þýskalands og Norður- og Austurlands verði árið 2024. Það eru margir þættir sem leiddu til þessar niðurstöðu, markaðssetningin erlendis hófst ekki nógu snemma til að ná flugi fyrir árið í ár og breyttar markaðsforsendur áttu einnig sinn þátt í að svona fór. Áhugi flugfélaga á millilandaflugi til Norður- og Austurlands fer stöðugt vaxandi, við finnum það mjög sterkt á ferðakaupstefnum og vinnustofum erlendis,“ er haft eftir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia innanlandsflugvalla.

Condor tilkynnti um áform sín í júlí í fyrra. Svo virðist sem tæplega árs fyrirvari hafi verið of skammur tími til að tryggja betur bókanir frá ferðaskrifstofum

„Reynslan sýnir að þetta er langhlaup og flugfélög eru varkár í sínum ákvörðunum um nýja áfangastaði og flugleiðir og það þarf töluvert úthald til að láta hlutina ganga upp. Það er afar mikilvægt að halda áfram að bjóða upp á aðgengi að landinu í gegnum nýjar gáttir í takti við stefnu stjórnvalda um að efla ferðaþjónustu í öllum landshlutum.

Það verður áfram helsta markmið okkar og sem fyrr segir er áhuginn greinilega til staðar. Framboð á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll hefur aldrei verið meira og ferðaskrifstofur sem bjóða ferðir þangað hafa verið að fjölga ferðum, svo dæmi sé tekið.“ segir Sigrún Björk.

„Við höfum heyrt frá Condor að þau hafi fulla trú á áfangastöðum á Íslandi, sér í lagi á Austur- og Norðurlandi. Rannsóknir Ferðamálastofu sýna að ferðamenn sem hingað koma hafa mikinn áhuga á að heimsækja landið aftur og skoða þá nýja landshluta og þýski markaðurinn hefur verið einn af lykilmörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir Sigrún Björk að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.