Condor: Aðdragandinn að fluginu var of skammur

Innan við ár var of skammur aðdragandi til að hægt væri að koma beinu flugi til Akureyrar og Egilsstaða á réttan kjöl, að sögn þýska flugfélagsins Condor sem ákveðið hefur að hætta við flug í sumar.

„Vegna þess hve seint ákveðið var að hefja flugið lánaðist Condor ekki nógu vel að ná í langtímabókanir í ferðalög til Íslands og þurfti því að hætta við áætlun sína sumarið 2023.

Við erum engu að síður sannfærð um að Norður- og Austurland eru áfangastaðir sem eiga mikið inni á þýskum markaði á næstu árum því þau bjóða upp á einstaka upplifanir utan alfaraleiðar,“ segir í svari þýska flugfélagsins við fyrirspurn Austurfréttar.

Í júlí í fyrra var tilkynnt um að félagið ætlaði að hefja vikulegt flug til annars vegar Egilsstaða, hins vegar Akureyrar frá Frankfurt frá miðjum maí fram í október. Í gær sendi Isavia frá sér tilkynningu til fjölmiðla um að Condor væri hætt við. Engar upplýsingar er enn að finna á vef flugfélagsins sjálfs.

Þegar fréttirnar birtust hafði Condor enn ekki haft samband við farþega sem áttu bókað. Mörgum var því brugðið. Þegar þeir fóru að sækjast eftir upplýsingum hjá þjónustufólki Condor kom það stundum af fjöllum og hélt því jafnvel fram að flugið væri enn á áætlun.

Þótt svör Condor séu ekki ítarleg taka þau af öll tvímæli um að ekki verður flogið í sumar. Það kemur illa við farþega sem sumir hafa keypt tengiflug, gistingu eða aðra þjónustu út frá áætlunum Condor.

Austurfrétt spurði sérstaklega út í hvernig viðskiptavinum yrði bættur skaðinn. Í því svari segir að allir farþegar fái bætur í samræmi við reglur um réttindi flugfarþega. Þá sé hægt að hafa samband við þjónustudeild Condor sem aðstoði við endurbókanir og bætur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.