Búið að tæma kvíarnar í Reyðarfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. júl 2022 12:23 • Uppfært 28. júl 2022 12:23
Búið er að tæma laxeldiskvíar í Reyðarfirði þar sem blóðþorri greindist í vor. Næst verður slátrað úr kvíum í Berufirði. Byrjað er að setja út ný seiði í Fáskrúðsfjörð.
Blóðþorrinn hafði ekki greinst áður í laxeldi hérlendis fyrr en hann fannst í stöð við Gripalda í Reyðarfirði í nóvember. Í apríl og maí fannst hann síðan í tveimur stöðvum til viðbótar í Reyðarfirði og öðrum tveimur í Berufirði.
Veiran er litin alvarlegum augum í fiskeldi og því þarf að einangra stöðvarnar og slátra öllum fiski í þeim. Þar sem veiran berst ekki í mannfólk er hægt að nýta lax til manneldis þótt hann sé sýktur.
Um miðjan mánuðinn var lokið við að slátra fiskinum úr Reyðarfirði í laxasláturhúsið Búlandstinds á Djúpavogi. Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Laxa/Fiskeldis Austfjarða, segir að allur sá fiskur sem taldist kominn í sláturstærð hafi verið nýttur til manneldis.
Næst á dagskránni er að slátra úr Berufirði. Jens Garðar segir fiskinn þar líta vel út og orðinn ágætlega stóran. Ekki hefur orðið vart við óeðlilegan laxadauða. „Við vitum að veiran er til staðar og fylgjumst vel með. Við viljum taka allan fiskinn sem fyrst en eldið hefur verið stöðugt,“ segir hann.
Útlit er fyrir að slátruninni verði lokið vel fyrir áramót. Þá er fyrirsjáanlegt langt hlé hjá Búlandstindi þar sem enginn eldisfiskur á Austfjörðum verður tilbúinn til slátrunar. Það verður vart fyrr en um mánaðamótin ágúst/september á næsta ári.
Fjórar stöðvar í rekstur í ár
Fiskurinn þá kemur úr eldi úr Fáskrúðsfirði. Þar var byrjað að setja seiði út í kvíar um mánaðamótin maí/júní. Jens Garðar segir þar um að ræða stór seiði, allt að 950 grömm. „Við höfum verið að setja út seiði í stöðvarnar við Höfðahúsabót og Fagureyri og það hefur gengið mjög vel.“
Síðar í haust er stefnt að því að setja aftur út seiði í stöðvarnar við Gripalda og Sigmundarhús í Reyðarfirði sem þá hafa lokið hvíldartíma. Fjórar stöðvar bætast við á næsta ári þannig slátrun og vinnsla verði komin á fullt skrið haustið 2023.
Tveir nýir fóðurprammar
Áður en seiði verða sett út við Gripalda verður fóðurpramma, sem sökk þar í óveðri í janúar 2021, lyft af hafsbotni. Til stendur að gera það í næsta mánuði.
Arftaki hans er kominn til Austfjarða, við bryggju á Reyðarfirði eru tveir fóðurprammar, Andey og Seley. Annar þeirra verður á Gripalda en eftir er að ákveða staðsetningu hins.
Jens Garðar segir prammanna, sem saman kosta tæpan einn milljarð íslenskra króna, sérstaklega gerða til að þola veðurágjöf. „Þeir eru skipslaga og eiga að þola 12-13 metra ölduhæð. Við sjáum sjaldan slíka hæð í fjörðunum okkar en hér geta þó komið stormar og við gerum sérstaklega ráð fyrir að þessir prammar nýtist á stöðvunum sem eru yst í fjörðunum.“