Skip to main content

Bjartsýnn á að ná að dekka tjón allra sem fyrir urðu í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. apr 2023 11:05Uppfært 24. apr 2023 12:49

Nú er slétt vika þangað til sérstakri söfnun Rótarýklúbbs Neskaupstaðar til handa þeim íbúum sem urðu fyrir eignatjóni í snjóflóðunum í lok síðasta mánaðar lýkur en bjartsýni ríkir á að markmið söfnunarinnar náist á þeim tíma.

Guðmundur Höskuldsson er formaður klúbbsins en klúbbmeðlimir hófu söfnun mjög fljótlega eftir að snjóflóðin féllu og ollu mörgum tjóni í ofanála við andlegt uppnám. Þó náttúruhamfaratryggingar bæti ýmislegt þá stendur margt út af auk þess sem sjálfsábyrgð fólks er til staðar í mörgum tilvikum.

„Markmiðið með söfnuninni er að reyna að bæta tjón allra þeirra sem urðu fyrir og fá það ekki bætt gegnum viðlagatryggingar eða slíkt. Það auðvitað ekki komið að fullu í ljós hver sú upphæð er í heildina enda enn verið að hreinsa til og ýmislegt að koma í ljós sem ekki lá ljóst fyrir áður.“

Guðmundur segir að útlit sé fyrir að ellefu húseignir sem fá tryggingabætur, ein tíu innbú eru einnig tryggð en ofan á tjón á innbúi urðu fjölmargir bílar fyrir tjóni og sumir þeirra ekki með kaskótryggingu sem er eina tegund trygginga sem bætir bílatjón við snjóflóð.

„Það virðist hafa orðið tjón á 21 bíl miðað við það sem við vitum og kannski tíu þeirra með þessa kaskótryggingu. Svo er margs konar annað tjón sem ekki er að neinu leyti bætt gegnum hamfaratryggingar. Það til dæmis girðingar, skjólveggir, pallar og annað slíkt sem er undandyra. Bíllinn minn lenti til dæmis á steyptum skjólvegg sem er hér á milli lóða og braut hann svo dæmi sé tekið. Hvorki veggurinn né bíllinn er tryggt með hamfaratryggingum.“

Óánægja með tjónamat Hamfaratrygginga

Guðmundur er ekki bjartsýnn á að þeir íbúar sem fyrir mestu tjóni urðu séu að fara að samþykkja þær tjónatölur sem Hamfaratryggingasjóður hyggst bæta.

„Hamfaratryggingar hafa gefið út áætlað heildartjón sem þeir taka beinan þátt í að bæta og ég hef heyrt að margt af því fólki sem bjó í þeim tveimur blokkum sem verst urðu úti sé ekki að fara að samþykkja það mat neitt á næstunni. Þar virðist afar margt vera vanmetið duglega. Þess utan þá vinna Hamfaratryggingar ekki eins og önnur tryggingafélög sem koma á staðinn eftir að tjón hefur orðið, meta það og útvega iðnaðarfólk ef þörf er á. Í þessu tilfelli, ef fólk samþykkir bæturnar, þá þarf það samt sjálft að sjá um að verða sér úti um smiði eða aðra sem þurfa að koma að lagfæringum. Það vita allir sem búa austanlands að það er ekki hlaupið að því að fá slíkt fólk.“

Markmiðið ekki langt undan

Guðmundur er þakklátur þeim fyrirtækjum sem hafa látið fé af hendi rakna í söfnunina og í síðustu viku veitti til dæmis Síldarvinnslan átta milljóna króna styrk.

„Það munar langmest um þessa stóru styrki en söfnunin annars gengur vel og vinaklúbbar okkar víðs vegar á landinu verið duglegir að koma söfnuninni á framfæri. Ég hef ekki glænýjar upplýsingar um hversu mikið hefur safnast en ég myndi giska á að við séum einhvers staðar kringum 20 milljónir króna eða svo. Tjónið sem bæta þarf er gróft reiknað einhvers staðar kringum 30 til 35 milljónir svo ég er bjartsýnn á að okkur takist þetta á þessum tíma sem eftir er.“

Styrktarreikningurinn er í Sparisjóði Austurlands, kennitala 550579-1979, reikningur 1106-05-250199

Guðmundur tekur mót átta milljóna króna styrk frá Síldarvinnslunni en það er hæsti styrkurinn sem klúbburinn hefur tekið á móti hingað til. Mynd SVN/Hákon Ernuson