Bæta þarf akstursbraut við flugvöllinn á Egilsstöðum

Forgangur uppbyggingar Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar millilandaflugs fyrir Keflavíkurvöll er ítrekaður í nýrri skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á suðvesturhorni landsins. Nauðsynleg uppbygging er metin á rúma tvo milljarða króna.

Bæði íslenskir flugrekendur og félög atvinnuflugmanna hafa síðustu ár kallað eftir að uppbyggingu varaflugvalla hérlendis sem geti tekið á móti vélum ef Keflavíkurvöllur lokast, einkum vegna veðurs. Að undanförnu hefur byrinn með uppbyggingunni á Egilsstöðum aukist og enn bætir í hann með þessari nýjustu skýrslu.

Þótt stýrihópnum hafi aðallega verið ætlað að kanna flugvallarkosti á suðvesturhorninu, og helstu tillögur snúist annars vegar um nánari athugun flugvallarstæðis í Hvassahrauni og áframhaldandi uppbyggingu í Keflavík, er ein af fimm tillögum hópsins um að Egilsstaðaflugvöllur verði endurbættur sem varaflugvöllur millilandaflugs.

Í skýrslunni kemur fram að á vellinum sé í dag hægt að koma fyrir 4-6 þotum af svipaðri stærð og Boeing 757-2000. Fjöldinn veltur á hvort krafa sé gerð um hvort þær komist á brott án aðstoðar dráttabíls, eða ekki.

Til að koma fleiri vélum fyrir og flýta fyrir rýmingu brautarinnar eftir lendingu hefur verið lagt til að gerð verði 1.000 metra löng og 15 metra breið akstursbraut meðfram flugbrautinni. Á henni megi koma fyrir allt að 14 flugvélum til viðbótar í neyð.

Kostnaður við flugbrautina er um tveir milljarðar króna, samkvæmt tölum sem fram koma í minnisblaði frá Isavia. Eins þarf að bæta við blindflugsbúnaði fyrir um 250 milljónir. Heildarkostnaður við uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar er því talinn nema 2-2,5 milljörðum króna.

Í skýrslunni er einnig fjallað um Akureyri sem mögulegan varaflugvöll. Þar þarf hins vegar að gera akstursbraut á landfyllingu og er heildarkostnaður við sambærilega uppbygginu nyrðra talinn helmingi hærri.

Stýrihópurinn velur því Egilsstaði því það sé fljótlegasta og hagkvæmasta aðgerðin til að mæta brýnni þörf á auknum afköstum varaflugvöllum. Að auki séu Egilsstaðir á öðru veðursvæði en suðvesturhornið. Eftir sem áður þó haldið áfram skoðun varaflugvallakostar fyrir bæði millilanda- og innanlandsflug í nágrenni Reykjavíkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.