Bæta öryggisbúnað í Fáskrúðsfjarðargöngum á næstu mánuðum
Vegagerðin hyggst endurnýja og uppfæra allan eftirlitsbúnað í Fáskrúðsfjarðargöngum á næstu mánuðum. Þetta fær Austurfrétt staðfest hjá upplýsingafulltrúa stofnunarinnar.
Í síðustu viku greindum við frá því að slökkvilið Fjarðabyggðar hefði, í kjölfar æfinga, lýst áhyggjum af takmörkuðum fjölda eftirlitsmyndavéla í þeim göngum. Fáskrúðsfjarðargöng voru formlega opnuð árið 2005 en smíði þeirra ganga miðaðist þá við byggingarreglugerð sem nokkru síðar varð úreld. Til marks um það eru um eitt hundrað öryggismyndavélar í Norðfjarðargöngum sem opnuð voru síðla árs 2017 en í hinum tólf ára eldri Fáskrúðsfjarðargöngum eru myndavélarnar aðeins fjórar eftir því sem Austurfrétt kemst næst. Þær myndavélar aðeins við munna þeirra ganga báðum megin.
Með tilliti til að öryggismyndavélar geta skipt sköpum þegar og ef slökkvilið, lögregla eða aðrir viðbragðsaðilar þurfa inn í tæplega sex kílómetra löng göngin til að bjarga fólki, slökkva elda, reykræsta eða glíma við aðrar alvarlegar aðstæður sem upp geta komið, þykir lykilatriði að fjölga myndavélum. Aðeins þannig geta viðbragðsaðilar áttað sig á hvernig staðan er við árekstur, slys eða eitthvað þaðan af verra í miðjum göngunum áður en björgunarfólk er sent inn til aðstoðar.
Glögglega má sjá á myndinni hversu fljótt reykur getur takmarkað yfirsýn ef eldur kemur upp í göngum. Við þær aðstæður geta öryggismyndavélar skipt sköpum. Mynd Slökkvilið Fjarðabyggðar