Báðir skálarnir firnastórir

Byggingar að Stöð í Stöðvarfirði, sem taldar eru vera frá því fyrir landnám, eru stærri en áður var haldið. Efniviður virðist vera þar til rannsókna tíu ár til viðbótar.

„Báðir skálarnir eru firnastórir,“ segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum að Stöð í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Grafið var þar í júnímánuði, þriðja sumarið í röð. Stærð skálanna er það markverðasta sem ljóst er orðið eftir uppgröftinn í sumar.

Um er að ræða tvo mikla skála sem virðast vera frá því fyrir landnám. Sá yngri, byggður skömmu fyrir árið 871, er rúmlega 30 metra langur. Undir honum er eldri skáli en ekki er enn ljóst hve stór hann er.

„Við erum búin að opna 40 metra langt svæði og eldri skálinn fyllir í það allt. Það er stórt, bæði á íslenskan og skandinavískan mælikvarða,“ segir Bjarni. Stærsti þekkti skáli landsins er í Böðmóðstungu á Síðuheiðum, rúmir 40 metrar, en hann er órannsakaður.

Útstöð eða landnámsbýli?

Til þessa hefur verið talið að um útstöð sé að ræða þar sem fólk frá Norðurlöndum eða Bretlandseyjum hafi búið tímabundið. Bjarni segir að stærð skálanna grafi heldur undan þeirri kenningu þótt hún sé engan veginn fallin.

„Við vitum mjög lítið um eldri skálann því sá yngri er byggður ofan í hann. Við vitum að annar endinn á eldri skálanum var smiðja og búumst því við að byggingunni hafi verið skipt niður í minni svæði. Þá hafi ekki verið smáhýsi, eins og búr eða smiðjur, við hliðina á meginhúsinu heldur hafi þau öll verið saman undir einu þaki,“ segir hann.

Þetta verði hins vegar frekari rannsóknir að leiða í ljós. Umfang uppgraftarins heldur áfram að vaxa eftir því sem rannsakað er meira og fleiri rústir koma í ljós. Bjarni ætlar að miðað við núverandi fjármagn og hraða taki uppgröfturinn 10-12 ár í viðbót.

Mikið af perlum

Bjarni segir þá gripi sem fundust í sumar svipaða og síðustu ár. Í ljós hafi komið arabískur peningur, dálítið af silfri og perlur sem alls eru orðnar 42 sem er nokkuð mikið. „Það er líka athyglisvert sem við finnum ekki en svörin gætu leynst í þeim hlutum sem við eigum eftir að grafa. Við höfum til dæmis fundið afar lítið af tóvinnuáhöldum en ef yngri skálinn er hefðbundinn landnámsskáli ætti að vera þar tóvinna og húsdýr. Varðveisla beina er það léleg að á henni er lítið að græða annars hefðum við getað séð hvaða dýr voru á svæðinu.“

Bjarni tekur líka fram að fullyrðingin um að skálarnir tveir séu báðir frá því fyrir landnám sé enn á tilgátustigi. Hún byggir hins vegar á því að gjóskulag frá 871, svokallað landnámslag, sé ekki í veggjum húsanna heldur í torfi yfir þeim.

Frá uppgreftrinum að Stöð í sumar. Mynd: Bjarni F. Einarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.