Austfirskar útgerðir greitt tæpa fimm milljarða í veiðigjöld
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. apr 2025 13:01 • Uppfært 02. apr 2025 13:09
Útgerðir, með heimilisfesti á Austurlandi, greiddu á árunum 2021-24 samtals tæpa fimm milljarða króna í veiðigjöld. Lögð er til umtalsverð hækkun á uppsjávarafla, einkum makríl, í tillögum ríkisstjórnarinnar að breytingum á gjaldheimtunni.
Þetta kemur fram í gögnum Fiskistofu, sem heldur utan um upplýsingar um veiðigjöldin. Veiðigjöld af Austurlandi námu á tímabilinu 4,95 milljörðum króna eða 13,7% af heildarveiðigjaldinu sem var 36,2 milljarðar. Það er svipað hlutfall og kemur frá Norðurlandi eystra og Suðurnesjum.
Veiðigjöldin voru hæst af Austurlandi árið 2023 eða 1,77 milljarðar króna enda þá ein besta loðnuvertíð sem sögur fara af.
Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar sést að hlutfallslega greiðir Suðurland hæstu veiðigjöldin eða um 20% á hverju ári. Stór hluti þess kemur frá útgerðum í Vestmannaeyjum. Á Austurlandi hefur Síldarvinnslan lagt til um helming veiðigjaldanna, rúma 2,5 milljarða.
Tölurnar eru reiknaðar út frá heimilisfesti útgerða. Þannig er veiðigjald Brims, sem er með uppsjávarútgerð sína á Vopnafirði, reiknað í Reykjavík. Brim hefur flest árin greitt hæst veiðigjald einstakra útgerða í landinu, yfir þessi fjögur ár nam það 3,6 milljörðum króna. Veiðigjöld af höfuðborgarsvæðinu hafa verið um 17% af heildinni.
Margföldun á makríl
Útgerð á Austfjörðum hefur undanfarin ár að miklu leyti byggst upp í kringum uppsjávarveiðar. Í þeim tillögum að breytingum sem kynntar voru í síðustu viku er gert ráð fyrir verulegum hækkunum á veiðigjaldi þeirra stofna.
Gert er ráð fyrir að reikna framvegis aflaverðmæti í norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl út frá gögnum frá Fiskistofu Noregs. Í greinargerð frumvarpsdraganna er bent á að verulegur munur séu á verðmæti landaðs afla úr þessum stofnun milli landanna þar sem verðið sé jafnvel tvöfalt hærra í Noregi.
Miðað við forsendur frumvarpsins er gert ráð fyrir margföldun tekna af uppsjávarstofnun. Þar kemur fram að fyrir þetta ár ættu heildarveiðigjöld af síld að fara úr 1 milljarði í 2,1 en stökkið er í makríl, úr um einum milljarði í 4,3. Áætlað er að breytingarnar leiði til heildarhækkunar á veiðigjöldum um 8,5 milljarða fyrir árið 2026 miðað við það sem þau eru nú.
Í greinargerðinni segir að áhrif á afkomu (EBITDA) verði mest á botnfiskútgerðir. Bæjarráð Fjarðabyggðar gagnrýndi í gær að ekki væri búið að reikna opinberlega út áhrif breytinganna á byggðir þar sem sjávarútvegur sé meginatvinnugreinin. Í greinarferðinni segir aðeins að með vísan í kafla um áhrif á samkeppnishæfni og rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja sé talið að frumvarpið hafi óveruleg áhrif á þau byggðalög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki séu staðsett.