Atkvæði greidd í ágúst um verkfallsboðun hjá Alcoa Fjarðaáli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. júl 2025 14:16 • Uppfært 10. júl 2025 14:16
Viðræður AFL Starfsgreinasambands og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál um nýjan kjarasamning eru sigldar í strand. Félögin undirbúa atkvæðagreiðslu um verkfall. Formaður AFLs segir ekki hægt að semja um minni kjarabætur en í öðrum stóriðjum á Íslandi.
„Við lítum svo á að slitnað hafi upp úr viðræðum. Við gerðum skýra grein fyrir hversu neðarlega við gætum farið. Eftir að Alcoa hafði velt því fyrir sér í um þrjár vikur fengum við hugmyndir í gegnum ríkissáttasemjara sem við höfnuðum.
Samninganefndin fundaði í kjölfarið og eftir það lýstum við því yfir að við værum ekki til viðræðna á þessum grundvelli og að við færum að undirbúa aðgerðir,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.
Ríkissáttasemjari telur fullreynt í bili
Kjarasamningurinn rann út í lok febrúar en viðræður um nýjan hófust í lok síðasta árs. Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í byrjun apríl og hann hefur fundað nokkrum sinnum með deiluaðilum síðan. Í síðustu viku lýsti hann því yfir að hann myndi ekki aðhafast meira í deilunni að svo stöddu.
„Ríkissáttasemjari gerir sér grein fyrir að upp er komin pattstaða og að væntanlega gerist ekki meira fyrr en við greiðum atkvæði um verkfall. Alcoa hefur boðið hækkanir sem eru mun lægri en í öðrum verksmiðjum. Okkar félagsmenn horfa til þess og við gerum okkur grein fyrir að við getum ekki samið um minna,“ segir Hjördís.
Sex mánaða aðdragandi að verkfalli
Að fara í verkfall í álverinu í Reyðarfirði er mikið ferli sem tekur alls sex mánuði því slökkva þarf á verksmiðjunni áður. „Við hefðum væntanlega undirbúning að atkvæðagreiðslu strax eftir verslunarmannahelgi. Trúnaðarráð félaganna mótar fyrst tillögu sem borin er upp til atkvæða. Niðurstöður gætu legið fyrir seinni hluta ágúst. Í framhaldinu er byrjað að slökkva á kerjum. Við teljum okkur nauðbeygð til að fara í ferlið miðað við stöðuna.“
Miðað við þetta gæti komið til verkfalls í febrúar eða mars árið 2026, um ári eftir að síðasti kjarasamningur rann út.
Alcoa Fjarðaál segist leita að sanngjörnum og raunhæfum samningi
Í skriflegu svari Alcoa Fjarðaáls til Austurfréttar eftir ósk um viðbrögð segir að markmið fyrirtækisins sé að ná samningi sem sé „bæði sanngjarn og raunhæfur. Samningurinn ætti að tryggja starfsfólki samkeppnishæf laun en styðja um leið við langtíma rekstrarskilyrði og stöðugleika fyrirtækisins til framtíðar.“
Þar eru sáttasemjara færðar þakkir fyrir hans vinnu við að koma viðræðunum áfram. „Því miður“ hafi viðræðurnar ekki enn borið árangur. Fyrirtækið segist virða lögbundin réttindi starfsfólks og lýsir sig tilbúið til „opins samtals til að leita sameiginlegrar lausnar.“