Athugasemdir við öryggismál í Fáskrúðsfjarðargöngum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. feb 2022 12:39 • Uppfært 18. feb 2022 12:45
Þrenn jarðgöng á Íslandi uppfylla ekki evrópskar öryggiskröfur. Fáskrúðsfjarðargöng eru þeirra á meðal.
Þetta er mat ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, sem nýverið skilaði áliti á öryggismálum í fjórum íslenskum jarðgöngum. Athugunin byggir á evrópskri löggjöf sem sett var árið 2004 og tók gildi árið 2006 og nær til vegganga lengri en 500 metra innan evrópska vegakerfisins.
Þrjú af fjórum jarðgöngum sem til skoðunar voru uppfylltu ekki kröfurnar. Það voru Vaðlaheiðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng. Ekki kemur fram hver fjórðu göngin voru.
ESA kallaði eftir upplýsingum um hvernig lögunum hefði verið framfylgt hérlendis árið 2020, en frestur til að uppfylla kröfurnar rann út árið 2014. Undanfarin tvö ár hafa því gengið skeyti milli ESA og samgönguráðuneytisins með spurningum og svörum um ástandið.
Athugsemdirnar í Fáskrúðsfjarðargöngum snúa að vatni og öryggismerkingum. ESA finnur að því að aðgangi að vatni sé ábótavant í öllum göngunum þremur, en samkvæmt reglum á ekki að vera lengra en 250 metrar milli brunahana en undanþágu frá því má fá ef sýnt er fram á að hægt sé að komast í nægt vatn. Íslensk stjórnvöld sendu útskýringar sem ESA mat fullnægjandi í lokaáliti sínu.
Athugasemdir eru gerðar við neyðarlýsingu í bæði Fáskrúðsfjarðar- og Almannaskarðsgöngunum. Ljós sem vísa fólki gönguleiðina komi til neyðarrýmingar eiga að vera til staðar og í ekki meira en 1,5 metra hæð. Í svari íslenskra stjórnvalda kemur fram að þessi lýsing verði klár fyrir árið 2024.
Í lokaorðum sínum hvetur ESA Íslendinga til að hraða vinnu sinni, ella gera ráðstafanir til bráðabirgða, enda séu reglurnar settar til að vernda líf og limi vegfarenda.