Álagsþættir líkleg orsök ítrekaðra blóðþorrasýkinga í Reyðarfirði

„Að öllum líkindum eru þetta samverkandi álagsþættir sem valda stökkbreytingum á þessari annars harmlausu veiru en ég er bjartsýnn á að hvíld á svæðinu muni duga til,“ segir Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun.

Í gær var staðfest blóðþorrasýking á þriðja kvíasvæði Laxa eldis í Reyðarfirði og að þessu sinni að Vattarnesi í utanverðum firðinum rúmlega tíu kílómetrum frá stöð fyrirtækisins við Sigmundarhús þar sem sýking fannst í aprílmánuði. Fimm mánuðum áður var sýking staðfest í stöðinni Gripaldi innst í Reyðarfirði en það var jafnframt í fyrsta skipti sem meinvirkt afbrigði veirunnar fannst hér við land.

Gísli er sérfræðingur í heilbrigði og velferð eldisfiska og hefur fylgst grannt með vegna sýkinganna í Reyðarfirði en vöktun og sýnatökur á svæðunum var stóraukin í kjölfar upphaflegrar sýkingar að Gripöldu í nóvember á síðasta ári. Hefur Matvælastofnun verið með eldi í Reyðarfirði og nærliggjandi fjörðum nánast undir smásjá í allan vetur.

Álag og hafstraumar

Þó seint verði hægt að fullyrða án vafa um orsakir ítrekaðra sýkinga í Reyðarfirði telur Gísli sterkar líkur á að það sé blanda mikils álags og hafstrauma í firðinum.

„Það virðist vera raunin að stökkbreyting á þessari veiru verði einungis þegar álag er mikið. Hvað Reyðarfjörð varðar er athyglisvert að síðasta ár var æði umhleypingasamt. Fyrst kom til þessi stóri fóðurprammi sem sökk í janúar, veturinn var líka leiðinlegur og mikill órói, alda og brim. Ofan á það var óvenju mikið um marglyttur á svæðinu lengi vel og á svipuðum tíma varð mikill þörungablómi í firðinum. Allt þetta er í aðdraganda þess að sýking finnst fyrsta skipti í kvíum við Gripöldu sem er innst í firðinum.“

Strax var brugðist við að Gripöldu og öllum fiski þar slátrað. Það svæði sett í 90 daga hvíld lögum samkvæmt.

„Þá kemur að hafstraumunum en í Reyðarfirði kemur straumurinn inn norðan til og fer út aftur sunnanmegin fjarðarins. Það er vel hugsanlegt að veiran hafi skolast áfram með straumum og það hafi tekið þennan tíma til að komast í fisk í kvíum við Sigmundarhús þar sem sýking fannst í apríl.“

Aftur var gripið til ítrustu varrúðarráðstafana. Öllum laxi í kvíum við Sigmundarhús slátrað og eftirlit aukið enn frekar. Talið var öruggt þá að eldiskvíar við Vattarnesið, tíu kílómetrum utar, væru ekki í hættu en annað hefur komið á daginn.

Tekur mánuð að slátra og fjarlægja

Starfsfólk Laxa eldis hefur þegar hafist handa við að slátra öllum fiski í kvíum við Vattarnes en rúmlega 1,1 milljón laxa eru þar í eldi og áætlar Gísli að það geti tekið fyrirtækið um mánuð að koma öllum fiski burt, slátra og hreinsa svæðið. Stærsti hlutinn fer til slátrunar í sláturstöð Búlandstinds á Djúpavogi enda fiskurinn kominn í 2 til 4 kíló að stærð og vel hæfur til manneldis en ISA-veiran er algjörlega skaðlaus mönnum.

Að hreinsun lokinni fer svæðið í 90 daga hvíld en sá tímarammi í íslenskum lögum tekur mið af ítrustu kröfum Evrópusambandsins vegna fiskeldis. Það verður því ekki fyrr en í október eða nóvember sem Laxar geta á ný hafið eldi við Vattarnes.

Hvað er blóðþorri?

Blóðþorri (ISA) er gott og gilt íslenskt orð segir Gísli og vísar til þess að komist veiran í eldislax hefst hún handa við að þurrka upp allt blóð í fiskinum. Hann verður fljótlega fölur fyrir vikið og hægur og það er sterk vísbending um sýkingu. Gísli segir þó að í grunninn sé ISA-veiran ekkert annað en fiskaflensa, náskyld flensuafbrigðum sem herji á menn og dýr, og undantekingarlítið harmlaus. Slík veira hefur meðal annars fundist í villtum laxfiskum en þó án þess að valda þar vandræðum svo vitað sé til.

ISA-veiran er tvenns konar; annars vegar ISA-HPRo sem er góðkynja afbrigðið og hins vegar hin stökkbreytta ISA-del sem veldur sýkingu og afföllum. Fræðingum ber almennt saman um að hið meinvirka afbrigði verði til við stökkbreytingu á meinlausa afbrigði veirunnar. Mörg fordæmi eru fyrir sýkingum í nágrannalöndum á borð við Kanada, Noreg, Skotland og Færeyjar en blóðþorrasýkingar hafa eingöngu fundist í laxfiski í Atlantshafinu. Gísli segir að í öllum tilvikum hafi tekist að mestu að uppræta vandamálið með virku eftirliti, sýnatökum og ítrustu kröfum um hreinlæti en auðvitað sé aldrei hægt að fyrirbyggja slíkt í eitt skipti fyrir öll. Hann er þó vongóður um að með góðri hvíld geti fiskeldi þrifist í Reyðarfirði á ný með tíð og tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.