Landinn er ekki svæðisútvarp: Réttara að skoða heilan vetur?

mtmli ruvaust 1Gísli Einarsson, ritstjóri Landans, segir að sjónvarpsþættinum hafi aldrei verið ætlað að fylla það skarð sem myndaðist þegar Ríkisútvarpið hætti reglulegum útsendingum svæðisstöðva. Hann segir ritstjórn þáttarins fylgjast náið með uppruna innslaga í þættinum til að stýra þeim sem jafnast um landið.

Þetta kemur fram í athugasemdum sem Gísli sendi Austurfrétt í kjölfar fréttar Austurfréttar um efnistök Landans sem byggði á grein og rannsóknum Hrafnkels Lárussonar. Þar kom fram að færri innslög væru í þættinum frá Austurlandi en öðrum landshlutum og Landinn væri óravegu frá því að fylla upp í það skarð sem RÚVAust skildi eftir sig, enda væri formið allt annað.

Gísli segist hafa gert ýmsar athugasemdir við grein Hrafnkels í bréfi til hans. Í framhaldi af frétt Austurfréttar telur hann hins vegar rétt að vekja athygli á hluta þeirra.

„Í fyrsta lagi hefur því aldrei verið haldið fram að Landinn ætti að fylla í skarðið fyrir svæðisútvarpið. Það að vega saman hálftíma útvarpsþátt, sem var fimm sinnum í viku, á afmörkuðu landssvæði og vikulegan, jafnlangan, landsdekkandi sjónvarpsþátt, út frá mínútufjölda hvers um sig, eru mjög furðuleg vísindi.

Landinn kom vissulega í staðinn fyrir svæðisútvarpið, að því leyti að hann varð til þegar svæðisútsendingar voru lagðar af. Vegna niðurskurðar á RÚV var ákveðið að leggja af svæðisbundnar útsendingar. Um leið var ákveðið að koma á fót vikulegum frétta- og þjóðlífsþætti. Þetta eru hinsvegar afar ólíkir miðlar og því tæplega hægt að bera þá saman," segir í athugasemd Gísla.

Á þetta var bent í frétt Austurfréttar og grein Hrafnkels en þar segir meðal annars að Landinn hafi aldrei átt möguleika á að taka við því umsvifamikla sem RÚVAust sinnti. Þar sagði meðal annars:

„Svo viðamiklu hlutverki sem Svæðisútvarpið gerði skil getur vikulegur sjónvarpsþáttur eins og Landinn ekki sinnt. Formið leyfir það einfaldlega ekki. Meðan svæðisútvörpin gátu átt í samtali við samfélagið getur Landinn einungis miðlað af því brotakenndum myndum."

Landinn býr líka í borginni

Gísli segir það einnig rangt hjá Hrafnkeli að fæst innslög séu frá Austurlandi. Af því svæði hafi verið níu innslög en sex frá Vesturlandi. „Frá Vestfjörðum eru hinsvegar þrettán innslög og því slær Hrafnkell saman við Vesturland þegar hann túlkar flokkunina."

Í grein Hrafnkels er bent á að innslögin níu séu samanlagt frá Austur-Skaftafellssýslu og Múlasýslum, starfssvæði RÚVAust. Á sama máta rak RÚV sameiginleg svæðisútvarp fyrir Vesturland og Vestfirði. Það starfaði hins vegar aðeins í tæpt ár. Frá árinu 1989-2009 var svæðisútvarp á Vesfjörðum.

Í úttekt Hrafnkels var uppruni hlutfallslega flestra innslaga Landans rakinn til Reykjavíkur. „Það er vissulega rétt að stór hluti efnis í Landanum kemur af höfuðborgarsvæðinu. Þess ber þó að gæta að stór hluti þess efnis fjallar ýmist um mál sem varða landið allt eða landsbyggðina þótt viðmælendur búi á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess má geta þess að landinn býr líka í höfuðborginni, hvort sem mönnum líkar betur eða verr."

Hrafnkell kannaði innslög í Landanum á yfirstandandi vetri, frá fyrsta þætti í byrjun október fram í byrjun febrúar. Gísli telur að réttara hefði verið að taka heilan vetur.

„Það má í því sambandi nefna að eftir að Hrafnkell lauk sinni talningu er búið að gera sex innslög af Austurlandi. Það gat hann að sjálfsögðu ekki vitað en, þar sem hann er að bera þetta saman við gamla útvarpsþætti, þá hefði varla skipt máli að skoða Landann á síðasta ári. Hrafnkell er reyndar alls ekki sá eini sem skoðar tölfræði Landans. Við sem við hann störfum gerum það reglulega til að stýra efnistökunum sem jafnast um landið.

Landinn er aldeilis ekki hafinn yfir gagnrýni en ég hafna því að hans stærsti galli sé að hann sé ekki svæðisútvarp! Ég skil hinsvegar vel að mörgum þyki eftirsjá í svæðisútvarpinu en það er bara allt annað mál, og kemur Landanum ekkert við," segir Gísli að lokum.

Austfirðingar mótmæltu þegar svæðisútvarpið var lagt niður í ársbyrjun 2010. Mynd: Steinunn Ásmundsdóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.