„Nánast allt selst upp þessa dagana"

Eskfirðingurinn Inga Geirsdóttir, eigandi Skotgöngu, er í yfirheyrslu vikunnar, en hún verður með kynningu á komandi ferðum á Reyðarfirði um helgina.


„Það er allt í blússandi uppgangi, nánast allt selst upp þessa dagana og mikil pressa á að setja haustferðir í sölu, en ég vil nú klára vor og sumar svo maður sé nú ekki að fara fram úr sjálfum sér,“ segir Inga, en Skotganga varð til árið 2006 og hefur verið í miklum vexti síðan, en hér má lesa frétt og horfa á innslag úr þættinum N4 um fyrirtækið.

Inga verður með tvær kynningar á ferðum sínum á Reyðarfirði um helgina, annars vegar í Sesam brauðhúsi á laugardaginn milli 9:30 og 12:30 og hins vegar á Tærgesen milli klukkan 16:00 og 19:00 á sunnudaginn.

„Ég ætla að kynna þær gönguferðir sem Skotganga er að bjóða uppá þá bæði í Skotlandi, Costa Blanca, Costa Brava og Tenerife. Fólk getur komið við og spurt mig út í ferðirnar og fengið þetta svona beint í æð,“ segir Inga um helgina.

Hvernig gengur í Skotgöngu, er þetta alltaf uppá við? Og hver eru helstu verkefnin í ár? „Nú erum við að vinna betur í því sem við höfum verið að gera – bæta og breyta og jafnvel bjóða uppá meiri nýungar. Nýju ferðirnar okkar í ár eru Prjónaferð til Tenerife, Léttganga og yoga á Tenerife sem og Mæðgnaferð til Costa Blanca, sem og svo konfektmolinn minn Costa Brava svo eitthvað sé nefnt. Aðsóknin er gríðarleg og allt er að fyllast þannig að ég ég er voðalega spennt fyrir að búa til enn meira nýtt – kannski karlaferð, hvernig væri það, ég og strákarnir? Annars eru allar hugmyndir vel þegnar.

Fullt nafn: Inga (Ingibjörg) Geirsdóttir.

Aldur: 57 ára.

Starf: Fararstjóri.

Maki: Snorri Guðmundsson.

Börn: Magga, Daði og Bjarki.

Barnabörn: Mikael, fimm ára. 

Uppáhalds staður á Íslandi? Útstekkur í Firðinum fagra.

Vínill eða geisladiskur? Vinillinn flottur, alltaf klassískur.

Mesta undur veraldar? Er enn að leita af þeim stað.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Bonnie bonnie banks of loch lomond.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Hef ekki ekki grænan grun.

Besta bók sem þú hefur lesið? Les bara ferðabækur og flestar eru þær mjög góðar og fróðlegar.

Hver er þinn helsti kostur? Ætli það sé bara ekki lífsgleði og jákvæðni og ekkert vex mér augum.

Hver er þinn helsti ókostur? Erfitt fyrir mig að segja þar sem ég er svo fullkomin, nei djók! Tala kannski of mikið. Er að vinna í þessu.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Pink Lady-epli enda geng ég undir því nafni, möndlumjölk og kjúklingur.

Hvað er í töskunni þinni? Allskonar drasl, til dæmis nokkrir pennar, bleikur varalitur og Harris Tweed smáaura buddan mín.

Hvað gerir þú ef þú vilt gera vel við þig? Fer á gott kaffihús og fæ mér ostaköku.

Hvað bræðir þig? Að hitta Mikael minn 5 ára.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Þar sem ég er mest á ferðinni allt árið þá byrjar morguninn á morgunverði og svo er ég rokin af stað með hópana mína í göngur en ef ég er heima þá sef ég fram að hádegi og vinn svo í tölvunni fram eftir öllu en reyni alltaf að koma mér út í klukkutíma göngu.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Allir uppáhalds en í mínu starfi eru allir dagar laugardagar – alltaf gaman, alltaf úti að borða með skemmtilegu fólki.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Enginn sérstakur.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Bara eins og flestir – að allir hefðu nóg af mat og enginn liði skort.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Ég lifi svo ævintýralegu lífi og ferðast það mikið. En eitt hefur mig alltaf langað til að gera og það er að fara í skipulagða gönguferð með fararstjóra – þarf endilega að prufa það þegar ég hef tíma.

Duldir hæfileikar? OMG, neibb, held að þar sé ég alveg á núllinu.

Mesta afrek? Var að rífa mig upp og flytja til Skotlands – hárrétt ákvörðun á réttum tíma.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, held að ég hafi ekkert eftir til að strengja. Lifi það heilbrigðu lífi, drekk ekki áfengi, reyki ekki, hreyfi mig nóg – en get örugglega fundið eitthvað ef ég reyni til dæmis að tala minna.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Eru það ekki foreldrarnir – segi það, þá verða þau svo ánægð.

Ertu nammigrís? Hef oft verið það – dett í það um jól en annars bara nokkuð slök með það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.