„Hún er bara tónlist og sköpun út í gegn“

Anya Hrund Shaddock, tónlistarskólanemi frá Fáskrúðsfirði heldur sigurgöngu sinni áfram, en hún er handhafi Nótunnar sem fram fór í Hörpu á laugardaginn.



Anya Hrund, sem er nemandi Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar- og Stöðvarfjarðar flutti píanóverkið Clair de lune eftir Claude Debussy.

Er þetta í annað skiptið á stuttum tíma sem Anya Hrund stendur uppi sem sigurvegari í stórri tónlistarkeppni, en hún sigraði Söngkeppni Samfés sem fram fór í Laugardalshöll réttri viku áður, þá með frumsamda laginu In The End.

Í samtali við Austurfrétt eftir sigurinn í Samfés sagðist Anya Hrund nota tónlistina sem leið út úr vanlíðan. Anya Hrund hefur samið fjöld laga og texta þrátt fyrir að vera aðeins 14 ára gömul, en viðtalið má lesa hér.


Töfrandi flutningur

„Ég er bara í sæluvímu, maður er kannski bara allt of tengdur henni til þess að átta sig á því hvað hún er framúrskarandi góð,“ sagði Suncana Slamning, píanókennari Önyu í samtali við Austurfrétt í morgun.

Suncana hefur kennt Önyu á píanó í ár. „Ég byrjaði bara að kenna henni í fyrra og eftir grunnprófið hefur hún tekið gífurlegum framförum og spilar eins og fullorðin, en ég get nánast lagt fyrir hana hvaða verkefni sem er. Hún er óhemju efnileg, en ég ber aðeins ábyrgð á hennar klassíska píanónámi, en auk þess semur hún og syngur – hún er bara tónlist og sköpun út í gegn.“

Suncana segir að án ekki hafi verið lagt upp með að sigra Nótuna. „Þá er ég ekki að meina að ég hafi ekki haft fulla trú á henni. Keppnin var gífurlega hörð og öll atriðin, hvert eitt og einasta, hefði getað unnið. Það að Anya skildi standa uppi sem sigurvegari sýnir enn og aftur hversu töfrandi hennar spilamennska er. Verkið sem hún var með bauð upp á persónulega túlkun og flutningur hennar sýndi hversu næm á slíkt hún er.“



Tónfræði og meiri tónfræði

Aðspurð að því hvað sé framundan hjá Önyu segir hún; „Nú ætla ég að misþyrma henni með tónfræði, hvort sem henni líkar betur eða ver. Hún tekur miðpróf næsta ár og við verðum að leggja áherslu á tónfræðina núna. Eftir miðprófið held ég að hún fari út í heiminn, á aðrar og stærri slóðir. Þó mig langi að fá að halda henni sem lengst má kennari ekki vera nískur á nemanda sinn, hún verður að fá að þróast og blómstra.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.