„Mín leið til að koma tilfinningunum út“

„Ég nota tónlistina oft sem leið út úr vanlíðan og þannig varð þetta lag til,“ segir Anya Hrund Shaddock, nemandi í níunda bekk Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, en hún sigraði Söngkeppni Samfés sem fram fór í Laugardalshöll á laugardaginn með laginu sínu In the end.



Anya keppti fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Hellinsins á Fáskrúðsfirði en hún hafði áður sigrað söngkeppnina Samaust sem fór fram á Fáskrúðsfirði þann 10. febrúar síðastliðinn.

„Lagið er um tveggja ára gamalt og það er mjög persónuleg saga á bak við það. Ég var lögð í einelti alveg frá því ég var lítil og upp í fjórða bekk í grunnskóla, þegar það hætti að mestu, en þó ekki alveg. Ég var mikið skilin útundan af því ég var öðruvísi, líklega af því ég var eini brúni krakkinn í skólanum.

Mér leið bara andskoti illa á þessum tíma og treysti engum nógu vel eða hafði einhvern sem ég þorði að tala við. Minningarnar rifjuðust upp og það erfiða tímabil sem ég gekk í gegn um. Að semja þetta lag var mín leið til að koma tilfinningum mínum út og láta vita að það væri ekki allt í lagi og það virkaði. Það fjallar í rauninni um hvernig mér hefur oft liðið og líklega flestum á einhverju tímabili í sínu lífi,“ segir Anya, en hún hefur samið fjölda laga og texta gegnum tíðina þrátt fyrir að vera aðeins 14 ára gömul.

 

Sigraði hug og hjörtu allra

Anya þurfti að stytta lagið niður í tvær mínútur úr fimm fyrir keppnina. Í tilkynningu frá Samfés segir; „Anya sigraði hug og hjörtu allra í troðfullri Laugardalshöll þegar hún söng lagið sitt In the end,“ – en í öðru sæti lenti Sara Guðfinnsdóttir úr félagsmiðstöðinni Óðal frá Borgarnesi með lagið We don‘t need to take our clothes of og í þriðja sæti var Júlíus Viggó Ólafsson úr félagsmiðstöðinni Skýjaborg en hann flutti lagið Piano man.

Í dómnefnd sátu þau Arnar Þór Gíslason, Lára Rúnarsdóttir, Ragna Björg Ársælsdóttir, Rakel Pálsdóttir og Sylvía Erla Melsted.

 

Gerir sér aldrei vonir um að sigra

Anya segist alls ekki hafa búist við að vinna keppnina, en í henni voru alls 30 atriði. „Ég geri mér aldrei vonir um að vinna svona keppni. Það eina sem ég hugsa um er að vanda mig, gera mitt besta og skemmta mér, það er allt sem skiptir máli þegar maður kemur fram. Annað er bara bónus.“

Samfés er ekki eina keppnin sem Anya hefur tekið þátt í síðustu daga, heldur vann hún sér sæti í lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu um næstu helgi, á héraðshátíð Austur- og Norðurlands sem haldin var í Egilsstaðakirkju fyrir viku.

Sýnt var beint frá keppninni á RÚV og hér er hægt að horfa á frábæra frammistöðu Önyu Hrundar, en hún stígur á svið á þegar ein klukkustund og 23 mínútur eru liðnar af útsendingunni (1:23).

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.