Helgin: „Rjóðrið er einstakt til tónlistarflutnings“

Karlakórinn Heimir heldur tónleika undir berum himni í Trjásafninu í Hallormsstaðaskógi í kvöld í tengslum við Skógardaginn mikla. Tónleikarnir eru hluti af afar fjölbreyttri dagskrá á Austurlandi um helgina.

 

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem karlakór syngur á þessu svæði, en í fyrsta skipti sem Karlakórinn Heimir syngur þarna, en hann er einn frægasti kór landsins,“ segir Jón Arngrímsson, stjórnarmeðlimur í Menningarsamtökum Héraðsbúa.

Þeir eru mjög spennir og það erum við líka, spáin er okkur afar hagsræði, hljómar upp á 17 stiga hita og logn í kvöld.“

Jón segir rjóðrið sem tónleikarnir einstakt til tónlistarflutnings.

„Þetta er eins og sérhannað tónleikasvæði. Þangað hafa komið sérfræðingar í hljóði sem skilja ekki hvernig stendur á því hve hljómburðurinn sé þar góður, en skógur er allajafna ekki gott svæði fyrir tónleikahald, þetta er eitthvað alveg sérstakt,“ segir Jón og bætir því við að hver sem er geti komið og troðið upp í rjóðrinu góða með samþykki Skógræktarinnar.

„Það er engin ástæða til annars en að búast við góðri mætingu, en ég vil endilega hvetja áhorfendur til að koma með stóla eða teppi til þess að sitja á.“

Fjölbreytt dagskrá á Skógardaginn mikla sem fram fer á morgun og hefst hún með hinu árlega skógarhlaupi klukkan 12:00. Formleg dagskrá hefst svo í Mörkinni klukkan 13:00 og dagskrána má sjá hér.

 


Eyþór Ingi á Borgarfirði

Eyþór Ingi kemur fram á í Fjarðaborg á Borgarfirði í kvöld á tónleikaröðinni Já sæll! Nánar má fylgjast með þeim viðburði hér.


Ljósmyndasýningin Bændur á Jökuldal

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir opnaði ljósmyndasýninguna Bændur á Jökuldal síðastliðinn mánudag á gistihúsinu og veitingastaðnum Á hreindýraslóðum á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal. Ragnhildur er fædd er og uppalin á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal og hafði dreymt um það í nokkur ár að taka myndir af öllum Jökuldælingum og gera úr því einhvers konar sýningu. Sýningin stendur í allt sumar og er opin daglega milli klukkan 8:00 og 22:00.


Tónlistarhátíðin Hringrás

Raftónlistarhátíðin Hringrás fer fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöldið. Nafn hátíðarinnar vísar til eðlisfræðinnar í virkni raftækja en hátíðin leggur áherslu á raftónlist. Einnig vísar nafnið til hreyfingu listamanna á milli landshorna. Tvö atriði eru frá Höfuðborgarsvæðinu, eitt frá Norðurlandi, tvö frá Austurlandi og eitt bæði frá Höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi.

Hugmyndin af hátíðinni kviknaði síðasta sumar upp úr samtölum Breka Steins Mánasonar verkefnastjóra og Unnars Geirs Unnarssonar forstöðumanns MMF sem störfuðu báðir í Sláturhúsinu. Frystiklefinn í Sláturhúsinu hentar einstaklega vel fyrir flutning raftónlistar, engin tónlistarhátíð er haldin á sumrin á Egilsstöðum og lítill eða enginn vettvengur er fyrir raftónlist á austurlandi. Því var ákveðið að setja tónlistarhátíðina Hringrás í gang.

Fylgjast má með viðburðinum hér.



Karlakórinn Heimir á Eskifirði og Vopnafirði

Þeir sem ekki komast til þess að sjá og heyra Karlakórinn Heimi í Trjásafninu í Hallormsstað í kvöld geta farið á tónleika með þeim í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á morgun klukkan 14:00.

Einnig halda þeir tónleika á laugardagskvöldið í Miklagarði á Vopnafirði á laugardagskvöldið klukkan 20:30.



Sýning á verkum Wilhelm Beckmann á Eskifirði

Listsýning verður opnuð í Kirkju- og menningarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á morgun. Þar gefur að líta myndir af verkum listamannsins Wilhelm Beckmann. Hann var íslenskur listamaður og myndhöggvari, fæddur í Hamborg árið 1909. Eftir hann liggja mörg verk í kirkjum, safnaðarheimilum og heimilum – en meðal annars eru skírnarfontarnir í Kolfreyjustaðarkirkju, Fáskrúðsfjarðarkirkju og Vopnafjarðarkirkju eftir hann.



Sýning á listaverkum eftir heimafólk í Breiðdalssetri

Sýning á málverkum og teikningum eftir Breiðdælinga opnar í Breiðdalssetri á sunnudaginn. Frétt um sýninguna má lesa hér.


Tröll á Skriðuklaustri

Ný fjölskylduvæn sýning verður opnuð á Skriðuklaustri á sunnudaginn klukkan 14:00. Á henni er fjallað um tröll í austfirskri náttúru og íslenskri tungu. Sama dag kemur út sjötta bindið í ritröð Gunnarsstofnunar Austfirsk safnrit og er það helgað austfirskum tröllasögum. Verkefnið naut styrks úr Uppbyggingarsjóði Austurlands og mun sýningin standa fram á haust. Nánar má fylgjast með sýningunni hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.