Tvær sýningar verða opnaðar í Skaftfelli um helgina

curver thoroddsenTvær nýjar sýningar verða opnaðar í Skaftfelli um helgina. Annars vegar er þar um að ræða sýningu danska listahópsins A Kassen og hins vegar Ragnheiðar Gestsdóttir og Curvers Thoroddsen.

Allir listamennirnir hafa dvalist í gestavinnustofum Skaftfells að undanförnu. Sýning A Kassen verður í aðalsýningarsalnum en sýning Ragnheiðar og Curvers í bókabúðinni – verkefnarými.

A Kassen er danskur listahópur sem hefur verið starfræktur síðan 2005. Meðlimir eru Christian Bretton-Meyer, Morten Steen Hebsgaard, Søren Petersen og Tommy Petersen. Þeir stunduðu allir nám á sama tíma í Konunglega danska listaháskólanum í Kaupmannahöfn og útskrifuðust árið 2007. A Kassen hafa verið mjög virkir í sýningarhaldi og hafa einu sinni áður sýnt á Íslandi, í maí 2012 þegar hópurinn var með einkasýningu í Kling & Bang gallerí, sem var hluti af Listahátíð í Reykjavík.

Snemma á undirbúningstímanum fór A Kassen hópurinn að afla sér vitneskju um íslenska náttúru og menningu. Þeir uppgötvuðu að á suðurhluta Íslands er að finna banana plantekru sem er meðal þeirra stærstu í Evrópu. Ræktunin hófst árið 1951 í Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi, rétt fyrir ofan Hveragerði. Bananarnir hafa verið ræktaðar þar óslitið síðan og er nú stýrt af Landbúnaðarháskóla Íslands. Árleg uppskera er um 100-120 klasar sem eru ræktaðir á 600-700 fermetra svæði. Gróðurhúsið er staðsett á jarðhitasvæði og notast er við jarðvarma og dagsbirtu við ræktunina.

Listamönnunum fannst þetta framtak áhugavert hliðstætt við áliðnaðinn sem fyrirfinnst á Austurlandi. Þar er framleitt allt að 360.000 tonn af áli á ársgrundvelli með vatnsaflsorku, sem fæst með virkjum tveggja jökulfljóta.

Bæði bananarnir og álið eiga það sameiginlegt að vera utanaðkomandi í íslenskri náttúru en jafnframt eru hin séríslensku náttúruöfl beisluð til að þjóna framleiðslunni. A Kassen studdust við þessar staðreyndir sem útgangspunkt við hugmyndavinnu og á meðan dvöl þeirra stóð héldu þeir áfram þróa verk sín.

Hópurinn fór í vettvangsferðir til að rannsaka og skoða fyrirbærin. Á Suðurlandi heimsóttu listamennirnir Landbúnaðarháskóla Íslands og kynntu sér hvernig jarðhiti er notaður til að hita upp gróðurhúsin.

Á Austurlandi keyrði hópurinn upp að Kárahnjúka virkjun og skoðuðu gljúfrin, stífluna og lónið þar sem vatnsaflsorkan á uppruna sinn. Í kjölfarið héldu þeir til Alcoa Fjarðaáls þar sem þeir fengu leiðsögn um álverið og kynningu á því hvernig vatnaaflsorkan frá Kárahnjúkum er notuð. Út frá þessum skoðunarferðum varð til prentefni með úrvali ljósmynda sem verður gefið út á komandi laugardag.

Sýning Ragnheiðar og Curvers kallast Fölblár punktur. Þau sýna afrakstur vinnu og tilrauna sinna á dvalartímanum en þar eru kannaðar bæði óravíddir heimsins og tilbreytingarlaus hversdagsleikinn á sama tíma.

Sýning þeirra opnar í dag klukka 17:00 og er opin á morgun og sunnudag frá 14:00 – 17:00. Sýning A Kassen verður opnuð á laugardaginn klukkan 17:00 og er opin til 26. ágúst á opnunartíma Skaftfells sem er 12-22 alla daga.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.