Villtum stofnum talin stafa lítil hætta af eldisfiski í matsskýrslu

Efasemdum er lýst um að kynblöndun eldislax við villtan lax sé óafturkræf í frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða um aukið eldi á vegum fyrirtækisins í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Umhverfisáhrif af auknu eldi eru almennt metin óveruleg eða afturkræf.

Sterkustu gagnrýnisraddirnar á aukið fiskeldi á Austfjörðum hafa komið úr röðum veiðiréttarhafa sem óttast kynblöndun lax sem sleppur úr eldi við villtan lax í austfirskum á, einkum Breiðdalsá og í Vopnafirði þar sem gjöfulustu laxveiðiár fjórðungsins eru.

Í skýrslunni er tekið að hluta tekið undir þessar áhyggjur en þar segir að „eðlileg og sjálfsögð krafa“ sé að íslenskum laxastofnum sé ekki ógnað og fórnar vegna uppbyggingar á eldi. Slík áhrif komi fram á mörgum árum en vegna þessa sé nauðsynlegt að markvissri vöktun og fyrirbyggjandi aðgerðum vegna hrygningar eldislaxa.

Telja mikið hafa áunnist

Þar eru þó settar fram ýmsar efasemdir um að hættan sé mikil. Bent er á að kvíarnar sem notaðar verða séu af nýjustu gerð frá Noregi. Nýir staðlar og aðgerðir þar hafi fækkað löxum sem sleppa úr 20% fyrir árið 2000 niður í 0,06% árin 2008-2015.

Þótt eldislax hafi hrygnt í norskum ám hafi gengið erfiðlega að staðfesta breytingu á erfðamengi hjá villta laxinum þrátt fyrir miklar rannsóknir. Þá skorti sannanir fyrir að erfðablöndun dragi úr hæfileikum villtu laxanna til að komast af. Vitað sé um erfðabreytingar í einstaka ám, einkum minni ám, en óvíst sé um langtímaáhrif.

Þá hafi lítið fundist af strokulaxi á Vesturströnd Noregs þrátt fyrir að þar sé mest laxeldi. Þetta bendi til þess að átak í að fyrirbyggja slysasleppingar skili árangri. Þótt töluvert hafi áunnist megi enn gera betur.

Athyglivert er að undanfarin ár hafa sveiflur í veiði úr náttúrulegum laxastofnum og veiði úr hafbeitarám verið mjög samfallandi. Það bendir til þess að afföll í hafi séu ráðandi þáttur um ástand og styrk íslenska laxastofnsins.

Sérstaklega er vikið að Breiðdalsá sem er sú veiðiá sem næst er eldinu. Sagt er að vart sé hægt að tala um sjálfbæran stofn þar sem veiðin sé takmörkuð þrátt fyrir seiðum sé sleppt í ána. Það gefi vísbendingu um að án seiðasleppinga eigi náttúrulegur stofn hennar erfitt með að standa undir núverandi veiðiálagi.

Mestar líkur eru taldar á að ef lax sleppi úr eldi í Berufirði syndi hann í suður en í þá átt eru engar laxveiðiár með sjálfbæra stofna fyrr en komið er á vatnasvæði Ölfuss. Af þessum sökum er talið ólíklegt að verði við erfðaáhrif.

Tæpur helmingur geldlax

Frummatsskýrslan er unnin vegna aukningar á eldi í fjörðunum tveimur um samtals 10 þúsund tonn í allt að 21 þúsund tonn. Fiskeldi Austfjarða hefur þegar leyfi til að framleiða 6000 tonn af laxi í Berufirði og 2000 tonn af regnbogasilungi auk 3000 tonna af regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði. Framvegis er gert ráð fyrir að allar þessar heimildir verði nýttar til að ala lax. Ef leyfin fást verða framleidd 10 þúsund tonn í Berufirði og 11 þúsund í Fáskrúðsfirði.

Í umræðum um slysasleppingar og aukningu á fiskeldi hérlendis hefur verið rætt um möguleikann á að nota geldlax í eldið. Gert er ráð fyrir að hluti eldisins verði með geldlaxi, 4000 tonn í Berufirði og 5000 í Fáskrúðsfirði. Í eldið verður notaður kynbættur laxastofn af norskum uppruna.

Talsmenn eldisfyrirtækjanna hafa til þessa staðið á bremsunni gagnvart ófrjóa fisknum því kostnaður við hann er hærri þar sem framleiða þarf sér fóður fyrir hann og afföll eru meiri. Eins er markaðsverð lægra vegna útlits og markaðurinn var á sér gagnvart genabreytingum. Landssamband fiskeldisstöðva, Hafrannsóknastofnun og Háskólinn á Hólum hafa tekið höndum saman um rannsóknir á hvort ófrjór lax henti til eldis hérlendis.

Öll áhrif afturkræf

Fiskeldi Austfjarða sækir um leyfi til að vera með kvíar á þremur svæðum í hvorum firði. Að einhverju leyti verða eldri svæði sameinuð og í Berufirði verður nýtt svæði, Hamraborg, tekið í notkun.

Í dag eru notaðar kvíar sem eru annars vegar 90 metrar og hins vegar 160 metrar í ummáli. Á þessu ári á að taka minni kvíarnar úr notkun þar sem þær stærri eru betri í rekstri og þola úthafsöldu betur sem aftur minnkar hættu á slysasleppingum.

Almennt eru umhverfisáhrif af fiskeldinu metin óveruleg. Áhrif á landslag, eðliseiginleika sjávar og líf botndýra undir kvíunum eru talin töluvert neikvæð en hins vegar afturkræf.

Heilsársvegur um Öxi og göng til Seyðisfjarðar

Áhrifin á nærsamfélagið á Djúpavogi eru talin verulega jákvæð og talsvert jákvæð á Fáskrúðsfirði vegna fjölgunar starfa og aukinnar fjölbreytni í atvinnulífi. Gert er ráð fyrir að bein störf á vegum Fiskeldis Austfjarða í framtíðinni verði 150-200 og afleidd störf álíka mörg.

Þá er bent á að aukið eldi kalli á bættar samgöngur, svo sem heilsársveg um Öxi og göng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða til að flytja út fisk með Norrænu.

Skýrsluna í heild má lesa á vef Skipulagsstofnunar. Frestur til að skila athugasemdum við hana rennur út á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.