„Við munum fara í gegnum þetta saman“

Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, segir hug landsmanna allra vera hjá Seyðfirðingum. Hún segir alla vera reiðubúna að aðstoða Seyðfirðinga, jafnt nú sem í þeim verkefnum sem framundan eru en minnir þá að því að huga að sér og sínum.

Þetta kom fram í máli Margrétar Maríu á upplýsingafundi um skriðuföllin á Seyðisfirði sem haldinn var í dag.

„Ég vil segja að æðruleysi ykkar og elja hefur snert okkur öll. Við finnum fyrir miklum stuðningi. Hugur landsmanna allra er hjá ykkur,“ sagði hún.

„Hugur minn er hjá því fólki sem misst hefur heimil sín. Ég get aðeins ímyndað mér hvernig er að vera í ykkar sporum. Ég finn mikið til með öllum sem ekki geta verið heima hjá sér um jólin. En það er bara eitt sem hægt er að gera í áföllum og það er að taka eitt skref áfram í einu.“

Hún þakkaði Austfirðingum og öðrum fyrir stuðninginn undanfarna daga sem og öllum sem komið hafa að viðbrögðum á Seyðisfirði. Margrét María, sem var áður umboðsmaður barna, minnti Seyðfirðinga á að hlúa að sér og sínum.

„Við verðum að huga að grunnatriðunum, sofa, nærast, drekka vatn og passa upp á okkur sjálf. Við verðum líka að huga að börnunum og hughreysta þau. Við erum að vinna fyrir ykkur og erum öll til þjónustu reiðubúin.“

Verið er að opna þjónustumiðstöð almannavarna í Herðubreið. Þar verður meðal annars hægt að nálgast fræðsluefni um hvernig ræða má og fara í gegnum áföll eins og skriðuföllin með börnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.