„Við þokumst niður og húsin upp“

Tíu manna hópur vinnur nú að fornleifauppgreftri við bæinn Stöð í Stöðvarfirði, en Minjastofnun Íslands úthlutaði fjórum milljónum til frekari rannsókna á húsarústum sem fundust við uppgröft á svæðinu í nóvember.



„Við erum búin að vinna í eina viku og eigum eftir að vera í þrjá,“ segir Dr. Bjarni Einarsson, eigandi Fornleifafræðistofunnar og umsjónarmaður verksins. Með Bjarna eru níu manns, sem eru starfsmenn Fornleifafræðistofunnar, nemendur við fornleifafræði við Háskóla Íslands sem og fornleifafræðingar frá Svíþjóð og Nýfundnalandi.

„Þetta gengur hægt eins og það á að gera, en við þokumst niður og húsin upp. Við erum rétt að komast ofan á veggina á því húsi sem ég tel að sé skálinn sem leitað er að, sem og á fleiri húsum sem eru í jaðrinum á honum.

Þetta getur ekki verið neitt annað en skáli, nema þá fjós, en þessi hús voru mjög lík og aðalmunurinn liggur í gólfinu og eldstæðum,“ segir Bjarni sem áréttar að hann sé bjartsýnn að um skála sé að ræða, sem yrði þá fyrsti staðfesti landnámsskálann á Austfjörðum, en enginn aldursgreindur skáli er frá Höfn og niður í Mývatnssveit.

Bjarni segir veðrið spila stórt hlutverk í vinnu sem þessari. „Það er slæmt ef það fer að rigna mikið en þá verður svæðið eitt drullusvað og við förum að trampa niður og skemma fyrir okkur.“

Bjarni segir að eftir þessa vinnutörn muni það skýrast hverslags hús liggi í túninu við Stöð.

Landnámsskáli í stöð2

Landnámsskáli í stöð3 

Ljósmyndir: Björgvin Valur Guðmundsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.