Verktakar björguðu miklu á Eskifirði

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar er þakklátur verktökum sem lögðu til tæki til að berjast við mikinn vatnsflaum í Hlíðarendaá á Eskifirði í gær. Um tíma var óttast að talsvert tjón gæti orðið.


„Við óttuðumst að illa gæti farið með nýju brúna,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

Verulega tók að vaxa í ánni eftir hádegi í gær og bar hún fram með sér mikið magn af möl og drullu. Nálægir verktakar, Suðurverk og Héraðsverk, voru kallaðir til um klukkan fjögur til að reyna að moka frá brúnni yfir ána.

Segja má að þeir hafi verið stanslaust að með gröfur fram undir miðnætti þegar loks tókst að losa um. „Þegar úrkoman minnkaði og það sjatnaði í ánni tókst að ná stíflunni. Það var ótrúlegt að sjá þessar stóru gröfur moka upp hverri skóflunni á fætur annarri og hafa ekki undan.“

Slegið hefur verið á að um fjögur þúsund rúmmetrum af möl og framburði hafi verið mokað upp úr ánni. Verktakar voru framundir morgun að keyra efninu í burtu. Páll Björgvin er þeim þakklátur fyrir vinnuna. „Þeir björguðu brúnni og komu í veg fyrir meira tjón. Við kunnum þeim miklar þakkir.“

Páll Björgin segir að eftir sé að meta skemmdirnar. Járngrindverk á ofanverðri brúnni hafi verið tekið í burtu og talsvert rask orðið á svæðinu. Ekki sé heldur búið að skoða skemmu sem sé neðan við brúna.

Um ár er síðan framkvæmdum við flóðavarnir í ánni lauk. Síðustu ár hefur verið gerðar varnir á Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Sveitarfélagið hefur barist fyrir að haldið verði áfram og bent á að nægir fjármunir séu í ofanflóðasjóðir. Unnið er að vörnum í Ljósá, næstu á innan við Hlíðarendaá, og var henni tímabundið veitt í ytri ána sem gerði hana enn stærri í gær.

„Við vitum ekki hvernig farið hefði ef þær varnir hefðu ekki verið til staðar. Atburðirnir í gærkvöldi sýna mikilvægi ofanflóðavarna um allt Austurland.“

Myndir: Kristinn Þór Jónasson/Visit Eskifjörður

hlidarendaa morgunn 1

hlidarendaa morgunn 2

hlidarendaa morgunn 3

hlidarendaa flod

hlidarendaa flod 2

hlidarendaa flod 3

hlidarendaa flod 4

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.