Undirstrikar hafnahófskennda stefnumörkun

Sveitarstjóri Djúpavogshrepps segir stefnumörkun ríkisins í fiskeldismálum handahófskennda. Hafrannsóknastofnun telur ekki æskilegt að ala meira en 6000 tonn af fiski í Berufirði en þar hefur þegar verið gefið út leyfi fyrir 8000 tonna eldi.


„Við erum að kynna okkur þessa skýrslu og forsendur hennar. Viðbrögð okkar munu taka mið af því. Þetta er stórt mál þannig maður vill stíga varlega til jarðar með miklar yfirlýsingar,“ segir Gauti Jóhannesson sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

Hafrannsóknastofnun sendi síðasta föstudag frá sér áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Metin eru svæði á Austfjörðum og Vestfjörðum þar sem búið er að meta burðarþol fyrir fiskeldi. Í skýrslunni segir að Breiðdalsá sé sú á sem sé í mestri hættu. Því er lagst gegn öllu eldi í Stöðvarfirði og lagt til að eldi í Berufirði verði ekki aukið.

Þar er hins vegar þegar komin leyfi fyrir meira eldi en ráðlagt er í skýrslunni og stefnt að enn meiru en burðarþol fjarðarins er talið tíu þúsund tonn. Gauti gagnrýnir hvernig þessar rannsóknir rekast hver á aðra. „Þetta undirstrikar hvað stefnumörkun hins opinbera er handahófskennd.“

Á Djúpavogi, sem og víðar á Austurlandi, hafa verið hugmyndir um mikla atvinnuuppbyggingu samfara auknu fiskeldi. „Ef þetta gengur eftir er auðséð að það hefði gríðarleg áhrif á fjórðunginn allan,“ segir Gauti um áhættumatið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.