Undirbúa að byggja hagkvæmar íbúðir í þremur þéttbýliskjörnum

Og synir/Ofurtólið ehf. undirbúa nú að byggja tíu íbúðir á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Eskifirði. Áformin hafa fengið staðfestingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þannig að kaupendur geti sótt um hlutdeildarlán fyrir þeim.

„Við höfum verið að hanna hagkvæmar íbúðir því hlutdeildarlánin byggja meðal annars á hagkvæmni, bæði hvað varðar stærð og nýtingu fermetranna. Þessar hugmyndir byggja á grænni hönnun, húsin verða eins nærri því að vera kolefnisjöfnuð og hægt er.

Við erum komin með forsamþykki frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir þessum teikningum,“ segir Þorsteinn Erlingsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur fengið úthlutað lóðum undir parhús við Bláargerði á Egilsstöðum, á Búðarmel á Reyðarfirði og svo fyrir parhús og fjögurra íbúða raðhús við Miðdal á Eskifirði. Raðhúsið verður með tveimur tveggja herbergja íbúðum og tveimur þriggja herbergja en samkvæmt fyrirliggjandi teikningum verða fjögur svefnherbergi í parhúsunum.

Þær íbúðir eru því sérstaklega stílaðar inn á fjölskyldufólk, en hlutdeildarlánin eru sérstaklega gerð fyrir fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign.

„Kaupandinn þarf að leggja fram 5% útborgun og síðan lánar ríkið 20% kaupverðs án afborgana í 10 ár og svo er hægt að fá allt að 10 ára framlengingu á því. Þetta er hugsað fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign eða eru fastir á leigumarkaði því þeir hafa ekki náð að safna sér fyrir útborgin. Ég hugsa að þetta sé töluvert stærri hópur en fólk hefur gert sér grein fyrir,“ segir Þorsteinn.

Fyrsti umsóknarfrestur fyrir hlutdeildarlánin rennur út um helgina. Sex umsóknarfrestir verða á þessu ári og opnar á ný fyrir umsóknir um miðjan febrúar. „Það er þá hægt að gera kaupsamning eða tilboð með fyrirvara um að lán fáist í næsta glugga,“ útskýrir Þorsteinn.

Byrjað verður á að byggja á Eskifirði. „Snjórinn stoppaði okkur í að setja upp vinnuaðstöðuna, annars værum við trúlega komin af stað þar. Það hjálpar í forgangsröðuninni að ein íbúðin þar er þegar seld. Lóðirnar eru líka hlið við hlið sem gerir verkið hagkvæmara,“ segir Þorsteinn að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.