Ullardýna RoShambo frumsýnd á Hönnunarmars

Ró ullardýnan, sem framleidd er af RoShambo á Seyðisfirði, verður frumsýnd á Hönnunarmars á morgun. Dýnan er fyllt með íslenskri ull og vilja hönnuðirnir gera tilraunir með að nota íslenska ull í annað en vefnað.


Dýnuna má nota á marga vegu; sem yfirdýnu, eina og sér með rimlabotni eða ofnum strigabotni, í stofu sem dýnu á legubekk eða samanbrotna á gólfi sem fallegt hægindi.

Í tilkynningu segir að hönnunarþríeykið hafi í nokkur ár kastað á milli sín pælingum um hvernig nota megi íslenska ull í nýju samhengi þar sem kostir ullarinnar fái virkilega að njóta sín.

Við hönnun dýnunnar var þess gætt að kostir ullarinnar skiluðu sér en að dýnan væri jafnframt falleg og stílhrein. Ullin er náttúrulegt efni sem hefur fjölmarga kosti fram yfir gerviefni í dýnugerð.

Rannsóknir sýna að svefn á ullardýnu hægir meira á hjartslætti en svefn á hefðbundinni dýnu, af því leiðir dýpri svefn og betri hvíld. Ullin hefur einnig reynst þeim vel sem þjást af ofnæmi, liðverkjum og öðrum kvillum.

Í tilkynningunni segir enn fremur að í áratugi hafi bændur verið hvattir til að framleiða hvíta ull sem sé betur fallin til litunar. Því sé ástæða til að hafa talsverðar áhyggjur af svörtum, gráum, mögóttum og botnóttum kindum þessa lands. Í anda þeirrar stefnu að nýta betur hráefnið er fyllingin í Ró dýnunni í öllum litum íslensku sauðkindarinnar.

Áklæðið er 100% ull og kemur frá danska fyrirtækinu Kvadrat. Litapalletta ársins er þrenns konar; beinhvítt, ljóstúrkis og blanda af þessum tveim litum.

Ró ullardýnan verður frumsýnd á Hönnunarmars 2016. Ullardýnan er fyllt með 100% íslenskri ull og klædd í hágæða ullaráklæði. Dýnan er hönnuð og handgerð af RoShamBo á Seyðisfirði.

Þær hafa unnið saman undir formerkjum RoShamBo síðan 2012. Í nokkur ár hafa þær kastað á milli sín pælingum um hvernig hægt væri að vinna með íslenska ull í öðru samhengi en sem prjón eða vefnað þar sem kostir ullarinnar fengju virkilega að njóta sín. Niðurstaðan er Ró ullardýnan.

Ró dýnan er framleidd á vinnustofu RoShamBo þar sem teymið vinnur saman að öllum þáttum framleiðslunnar. RoShamBo skipa þær Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, Litten Nystrøm og Þórunn

Eymundardóttir sem allar eru starfandi listamenn og hönnuðir á Seyðisfirði og hafa unnið undir merkinu frá 2012.

Frumsýnt verður á Klapparstíg 11 í Reykjavík klukkan 17:00 á morgun, fimmtudaginn 10. mars. Opið verður til tíu um kvöldið. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.