Tillögur um byggðakvóta ganga ekki upp

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps telur tillögur um breytta úthlutun byggðakvóta ekki gagnast þeim sjávarbyggðum sem helst hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Ekkert sveitarfélag missir jafn mikið verði þær samþykktar.

„Þetta eru ekki viðbrögð við ástandinu sem ríkir í dag,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi, um tillögur starfshóps um framtíðarskipan byggðakvóta. Samantekt hópsins var gerð opinber í síðustu viku en frestur til að gera athugasemdir rennur út í júlí.

Í skýrslunni segir að hópurinn hafi meðal annars orðið sammála um þær forsendur að byggðakvóti ætti að nýtast best til að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem erfiðast hafi átt með að aðlagast breytingum í sjávarútvegi. Lagðar eru til breytingar eins og að úthluta byggðakvóta til lengri tíma til að skapa stöðugleika og bjóða fleiri aðilum að borðinu en bara útgerðum eða fiskvinnslum.

Uppsjávarbyggðirnar hagnast

Það eru forsendurnar að skiptingu kvótans sem Djúpavogshreppur gerir mestu athugasemdirnar við. Útreikningurinn byggir að miklu leyti á löndunum og íbúafjölda á árunum 1980-1983. Útkoman að úthlutun Djúpavogs minnkar um rúm 260 tonn frá núverandi kerfi og á Breiðdalsvík um 90 tonn. Á sama tíma eykst hlutur bæði Vopnafjarðar og Fáskrúðsfjarðar verulega.

Í umsögn sinni um tillögurnar bendir sveitarstjórn Djúpavogshrepps á að fyrir þremur árum hafi 90% aflaheimilda horfið úr sveitarfélaginu. „Ekkert byggðarlag á landinu þarf að taka á sig aðra eins skerðingu samkvæmt tillögum starfshópsins og það sem fyrir þremur árum horfði á eftir 9 af hverjum 10 tonnum annað,“ segir í umsögninni.

„Aðrar byggðir, svo sem Fáskrúðsfjörður og Vopnafjörður, sem sannarlega hafa aðlagast breytingum í sjávarútvegi, meðal annars með stóraukinni vinnslu á uppsjávarfiski og þar sem umtalsverðar fjárfestingar hafa átt sér stað undanfarin ár, fá hins vegar umtalsverða úthlutun. Þessar byggðir eiga allt gott skilið – en einhvern veginn gengur þetta ekki upp.“

Þarf að horfa á byggðir sem eru í vanda í dag

Sveitarstjórnin gagnrýnir enn fremur að miðað sé við stöðuna árin áður en kvótakerfinu var komið á. „Breytingar og framþróun í atvinnuháttum hafa sem betur fer átt sér stað víða um land frá því fyrir rúmum 30 árum og gert það að verkum að sjávarútvegur og vinnsla skipta minna máli í einstökum byggðarlögum en áður. Það er þó ekki svo um allt land og sé það raunverulegur vilji löggjafans að efla sjávarbyggðir í vanda þá ætti endurskoðun á reglunum að taka mið af þeim byggðum sem eiga í vanda núna. Þessar tillögur gera það ekki.“


Breyting á byggðakvóta eftir sveitarfélögum
Sveitarfélag Breyting miðað við tillögur
Vopnafjörður +298
Borgarfjörður +137
Seyðisfjörður +308
Mjóifjörður 0
Neskaupstaður 0
Eskifjörður 0
Reyðarfjörður 0
Fáskrúðsfjörður +323
Stöðvarfjörður +332
Breiðdalsvík -90
Djúpivogur -263

Fréttin birtist í síðasta Austurglugga. Við birtingu víxlaðist breyting kvótans á Breiðdalsvík og Djúpavogi. Skjalið er hér með birt rétt um leið og beðist er velvirðingar á mistökunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.