Tæplega 200 kindum smalað eftir áramót

Hátt í tvö hundruð kindum hefur verið smalað saman í Fljótsdalshreppi það sem af er þessu ári. Fjallskilastjóri segir að breyta verði skipulagi á fjallskilum þegar fjáreigendur sinna ekki ákalli um að koma fé sínu heim.

„Ástæðurnar sem að baki liggja. Að hluta til er þetta skipulagsleysi, fjáreigendur hafa ekki staðið nægilega vel að gangnaskilum og fjárlausir landeigendur ekki sinnt skyldum sínum.

Skyldan er samt fyrst og fremst á fjáreigendum að ná sínu fé heim. Þeir geta ekki varpað ábyrgðinni á aðra.

Á þessu svæði hefur bara verið farin ein aðalganga, um miðjan október, þegar seinni göngu á að vera að ljúka,“ segir Þorvarður Ingimarsson, bóndi á Eyrarlandi og formaður fjallskilanefndar í Fljótsdal.

Fjáreigendur ekki sinnt tilmælum

Fjallskipanefndin sendi í lok nóvember fjáreigendum bréf þar sem þeir voru hvattir til að ná þeim kindum sem væri vitað af utandyra. Viðbrögðin voru takmörkuð og því gekk sveitarfélagið í smölunina.

Sauðfjárveikivarnalína er dregin í gegnum Fljótsdalinn eftir Jökulsánni og er útigengna féð nær allt austan megin árinnar í svokallaðri Suðurbyggð.

Léleg fjallskil bitna ekki bara á fjáreigendum í Fljótsdal heldur einnig nágrönnum þeirra. Í byrjun árs komu smalar úr Skriðdal og smöluðu yfir 60 kindum á tveimur dögum, þar af helmingnum úr Fljótsdal.

Frá 10. janúar hefur Þorvarður, í félagi við fleiri, farið sjö mislangar ferðir til að smala, síðast í gær. Enn er vitað af tíu kindum úti og verður þess freistað að ná þeim á næstu dögum.

„Ástand kindanna er misjafnt. Sumar eru allt í lagi en lömbin eru rýr, einkum þau sem voru lengst uppi á fjalli. Það er ekki boðlegt að láta féð ganga svona úti.“

Ekki heimilt að rukka bændur sem ekki standa sig

Kostnaður af smöluninni lendir á sveitarfélaginu. Samkvæmt fjallskilareglugerð skal greitt fyrir þau annars vegar með vinnuframlagi fjáreigenda, hins vegar úr sveitasjóði. Heimildir skortir hins vegar til að rukka þá bændur sem ekki standa við vinnuframlagið.

Í fundargerð hreppsnefndar kemur hins vegar fram að búið sé að greina Matvælastofnun grein fyrir því að nokkrir fjáreigendur hafi ekki sinnt áskorun um að ná fé sínu heim.

„Þetta er spurning um dýravelferðarmál þegar menn hugsa ekki um sitt búfé. Fjáreigendur geta ekki bara skammast út í stofnunina eða fjallskilastjóra, ábyrgðin liggur hjá þeim sjálfum,“ segir Þorvarður.

Eins sé ljóst að breyta þurfi skipulagi fjallskilanna sem verði væntanlega verk nýrrar fjallskilanefndar. Hreppsnefnd skipar hana í upphafi hvers kjörtímabils en sveitastjórnarkosningar eru í lok maí.

Úr smalamennsku í Fljótsdal í vikunni. Mynd: Þorvarður Ingimarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.