Sýndu íslenskunámi einstakan áhuga

Þrjár starfskonur hjá Síldarvinnslunni (SVN) hafa sýnt íslenskunámi sínu í vetur einstakan áhuga. Þær hafa m.a. beðið um heimaverkefni. Mikil áhersla er á að tala íslensku hjá SVN.

Fjallað er um málið á vefsíðu SVN og þar er rætt við Ólöfu Stefánsdóttur sem kennir íslensku fyrir útlendinga á vegum Austurbrúar á Seyðisfirði.

„Það er Austurbrú sem stendur fyrir náminu og það hefur gengið vel. Í haust var byrjað á námskeiði fyrir byrjendur og sóttu það átján nemendur þegar mest var, þar af þrjár konur frá frystihúsi Síldarvinnslunnar,“ segir Ólöf.

„Þær eru frá Lettlandi, Ungverjalandi og Serbíu og sýndu náminu einstakan áhuga. Þegar ég ætlaði að hlífa nemendum og sleppa þeim við heimavinnu komu þær og báðu um heimaverkefni. Mikið væri gott ef allir nemendur væru svona.“

Fram kemur að þetta var námskeið fyrir byrjendur en síðan verður boðið upp á áframhaldandi nám eftir áramót.

„Sum fyrirtæki hvetja starfsfólk sitt sérstaklega til að sækja námskeiðin og það er einmitt það sem Síldarvinnslan gerir,“ segir Ólafía.

Ómar Bogason hjá frystihúsinu á Seyðisfirði segir að mikil ánægja sé með íslenskunámskeið Austurbrúar. Hann segir jafnframt að í frystihúsinu sé mikil áhersla lögð á að tala íslensku við erlenda starfsmenn og eigi það örugglega þátt í því að margir þeirra ná tökum á málinu á undraskömmum tíma.

Mynd: Íslenskunemar Síldarvinnslunnar þær Everita Zulke frá Lettlandi, Marianna Weinrauch frá Ungverjalandi og Daniella Skolov frá Serbíu. Mynd Ómar Bogason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.