Svipa besta mjólkurkýrin

Kýrin Svipa á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu mjólkaði mest austfirskra kúa á síðasta ári. Meðalnyt eftir hverja kú voru mest á Austurlandi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2020. Svipa gaf alls 13.293 lítra af mjólk á síðasta ári sem kemur henni í sjötta sæti á landsvísu.

Meðalnyt á Austurlandi voru 6.693 lítrar af mjólk á hverja kú og 331.036 lítrar að meðaltali frá hverju búi. Á landsvísu var meðaltalið 6.384 lítrar á kú og 6.384 lítrar frá búi. Austfirsku búin eru að meðaltali stærst með 52,4 árskýr meðan á landsvísu er meðtalið 54,4 kýr.

Á móti kemur að búin eystra eru ekki mörg. Þau eru 27 talsins með alls 1.412 kýr en á landsvísu eru 534 bú með 26.127 kýr.

Mest nyt að meðaltali á hverja kú eystra voru 7.640 lítrar á Núpi í Berufirði en kýrnar þar eru 108 talsins. Búið var 40. sæti yfir meðalnytin á landsvísu.

Þrjú önnur austfirsk kúabú eru þar skammt á eftir. Egilsstaðabúið var með 7.594 lítra að meðtali frá 75,2 kúm, Engihlíð í Vopnafirði með 7.553 lítra eftir 54,6 kýr og Hánefsstaðir í Seyðisfirði með 7.514 lítra eftir 28 kýr.

Á þeirra tveggja er stærsta kúabú landsins, Flatey á Mýrum, með 7.532 lítra að meðaltali eftir 226,9 kýr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.