„Skriðan verður aftur græn“

Ómar Bogason, íbúi á Seyðisfirði, segist ætla að halda jólin í þakklæti yfir því að ekki hafi farið verr þegar miklar skriður féllu á bæinn í síðustu viku. Hann vonast til að lærdómur verði dreginn af skriðunum sem síðar bjargi mannslífum.

„Ef ég segi eins og er, eins og mér líður, þá er mér efst í huga þakklæti.

Þakklæti fyrir að skriðurnar sem féllu skyldu eira húsum sem fólk var í en eyða húsum sem voru tóm. Við syrgjum hús en við syrgjum ekki fólkið okkar. Það er aðalatriði,“ segir Ómar.

Hann og fjölskylda hans varð fyrir talsverðu tjóni í stóru skriðunni síðasta föstudag. Hús dóttur hans eyðilagðist auk þess sem hann var meðal eigenda Silfurhallarinnar, skrifstofubyggingar sem gereyðilagðist. Talið er að það hafi þó bjargað íbúðarhúsi sem stóð neðar götunnar en þar var fólk heima þegar skriðan féll.

Ætlar að eyða jólunum í þakklæti

Ómar talar hins vegar af reynslu þegar hann segir frá missi í ofanflóðum. „Ég átti mömmu sem missti móður sína og tvær yngri systur í sjóflóð sem féll á bæinn Goðdal á Ströndum í desember árið 1948. Ég viðurkenni að þegar ég fór að sofa á föstudagskvöld hugsaði ég með mér að það hefði getað höggvið í sama knérunn.

Ég er eiginlega feginn að skriðan sé fallin. Hún féll og það dó enginn. Hún hefði getað komið á öðrum tíma, til dæmis að nóttu. Þess vegna ætla ég að kveikja á kerti og eyða jólunum í þakklæti til þess sem sat við stýrið þegar skriðunni var stýrt niður.“

Ómar vonast einnig til þess að lærdómur verði dreginn af skriðunni sem auki öryggi fólks í framtíðinni. „Við eigum eftir að læra af þessu.“

Seyðisfjörður mun rísa á ný

Framundan er mikið verk við að verja bæinn og byggja aftur upp öryggi þeirra sem þar búa eftir áföll síðustu viku. Ómar kveðst bjartsýnn á að það gangi vel.

„Ef það þarf að færa bæinn þá gerum við það með góðri hjálp. Hér ætlum við að búa áfram í öruggu skjóli. Ef fólk getur ekki búið öruggt á sínu heimili sínu, þar sem á að vera skjól, þá getum við misst fólk. En ég kvíði ekki framtíðinni með þessum mikla stuðningi sem ég finn af landinu öllu. Við munum standa þetta af okkur og byggja bæinn upp aftur.

Seyðisfjörður mun rísa á ný, sólin mun aftur skína á fjörðinn og skriðan verður aftur græn. Ég er sannfærður um það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.