Skoðar hvort hægt sé að flýta Fjarðarheiðargöngum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist vilja skoða hvort hægt sé að flýta Fjarðarheiðargöngum, sem öðrum framkvæmdum sem þurfi til að tryggja öryggi Seyðfirðinga.

„Það er sláandi að sjá aðstæðurnar en um leið þessa eðlilegu, óttablöndnu virðingu við náttúruna sem við Íslendingar þurfum að hafa.

Seyðfirðingar hafa sýnt makalaust æðruleysi, samstöðu og hugrekki til að takast á við framtíðina. Þetta er það sem við tökum með okkur,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við Austurfrétt í lok heimsóknar hans og þriggja annarra ráðherra á Seyðisfjörð í dag.

Ráðherrarnir skoðuðu ummerki eftir skriðuföllin í firðinum í síðustu viku og ræddu við bæjarbúa og viðbragðsaðila. Á mörgum brann spurningin um hvernig öryggi bæjarins verði tryggt til frambúðar.

„Við verðum að setja kraft í uppbygginguna, þá kemur þetta. Við þurfum nú að fara yfir hvernig. Það þarf að endurheimta þessar menningarminjar sem hafa glatast, það þarf húsnæði fyrir fólk og slíkt auk þess sem ég held að ofanflóðavarnir skipti miklu máli fyrir öryggistilfinningu bæjarbúa,“ sagði Sigurður Ingi aðspurður um öryggismál bæjarins.

Margir spurðu út í Fjarðarheiðargöng, en sem betur fer var heiðin nokkuð greiðfær þegar bærinn var rýmdur síðdegis á föstudag. „Svona atburður ýtir enn frekar á að tímasetningar varðandi þau standist og frekar flýtir þeim en hitt,“ sagði Sigurður Ingi.

Nánar spurður út í hvort göngunum yrði flýtt svaraði hann: „Ef hægt er. Við skoðum hvað hægt er að gera. Það er enginn bilbugur á okkur varðandi þessa samgöngubót. Það var heppni að Fjarðarheiðin var opin við þessar aðstæður sem sköpuðust. Við þurfum að fara í öll þessi verkefni til að sjá hvað við getum gert hratt og vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.