Skipstjórinn taldi ekki Covid-smit um borð

Skipstjóri flutningaskipsins Taurus Confidence svaraði öllum spurningum um mögulegt Covid-19 smit um borð neitandi í yfirlýsingu sinni til Landhelgisgæslunnar áður en skipið kom til hafnar á Reyðarfirði á laugardag. Umboðsaðili skipsins hérlendis lét hins vegar vita af einkennum.

Þetta kemur fram í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Austurfréttar. Hafnsögumenn í Mjóeyrarhöfn gagnrýndu í fjölmiðlum í gærkvöldi að upplýsingar um mögulegt smit um borð hefði borist seint og eftir krókaleiðum. Smit hefur verið staðfest hjá 10 skipverjum af 19.

Samkvæmt reglum Landhelgisgæslunnar eiga skip sem koma til Íslands að senda sérstaka Covid-19 heilbrigðisyfirlýsingu til gæslunnar áður en þau fá heimild til að koma til hafnar hérlendis.

Neikvæð próf um borð

Í eyðublaðinu eru sjö já/nei spurningar, með möguleikum á athugasemdum, sem allar snúa að því hvort einhver úr áhöfninni hafi verið í nágrenni við Covid-smitaðan einstakling síðastliðna 14 daga. Fyrsta spurningin er hvort einhver úr áhöfninni hafi verið á svæði þar sem vitað er um Covid-smit undanfarna 14 daga og hvort sá einstaklingur sýni einkenni, svo sem hita og hósta.

Í svarblaðinu sem barst frá Taurus Confidence var öllum spurningunum svarað neitandi. Hins vegar var tekið fram að einhverjir úr áhöfninni hefðu fengið kvef en einnota Covid-próf um borð hefðu gefið neikvæða niðurstöðu. Í viðtali við Vísi í gær lýsti hafnsögumaður að skipstjórinn hefði svo veikur að annar stýrimaður hefði þurft að stýra skipinu til hafnar.

Umboðsaðilinn brást hárrétt við

Yfirlýsingin barst um hádegi, um fimm tímum áður en skipið lagði að bryggju í Mjóeyrarhöfn. Landhelgisgæslan hafði þá ítrekað beiðni um yfirlýsinguna en búið var að virkja viðbúnað því skömmu fyrr, eða klukkan 11:16, hafði umboðsaðili skipsins hérlendis haft samband við Landhelgisgæslunnar.

Hann lét vita að hluti áhafnarinnar væri með kvef og hita auk þess sem óskað hafði verið eftir lyfjum um boðs í skipið. Gæslan hafði strax samband við önnur yfirvöld vegna gruns um smit og viðbragðsáætlun sóttvarnayfirvalda var virkjuð. Viðbúnaður var því kominn af stað áður en yfirlýsings skipstjórans barst.

„Umboðsmaður skipsins brást hárrétt við með því að upplýsa Landhelgisgæsluna um hugsanleg veikindi um borð í skipinu þar sem öllum spurningum áhafnarinnar í heilbrigðisyfirlýsingunni sem gáfu tilefni til að ætla að hugsanlegt smit væri um borð var svarað neitandi,“ segir í svari Landhelgisgæslunnar.

Ekki talin smithætta út frá skipinu

Taurus Confidence lagði af stað frá Sao Luis í Brasilíu laugardaginn 6. mars og var því sléttar tvær vikur á siglingu. Þar hefur Covid-19 grasserað og komið fram afbrigði af veirunni sem talið er illvígara en önnur. Staðfest hefur verið að skipverjarnir tíu eru með það. Skipið var að flytja súrál til álvers Alcoa Fjarðaáls. Það er skráð á Marshall-eyjum.

Málinu telst lokið af hálfu Landhelgisgæslunnar en henni er aðeins ætlað að óska eftir upplýsingum frá skipum en ekki sannreyna þær. Umsjón með skipinu er í höndum lögreglu og heilbrigðisyfirvalda á Austurlandi. Skipverjar eru í sóttkví og einangrun um borð og ekki talin hætta á að smit berist út frá skipinu.

Einn Íslendingur, hafnsögumaður sem fylgdi skipinu til hafnar, er í sóttkví. Hann var í hlífðarfatnaði en óbólusettur. Utan hans hafa aðeins læknir og hjúkrunarfræðingur farið um borð í skipið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.