Seyðfirðingum sendur heimagerður jólaís

Um sextíu manns tóku jákvætt í umleitan Katrínar Reynisdóttur, fyrrverandi íbúa á Seyðisfirði, þegar hún óskaði eftir fólki sem tilbúið væri að gera ís fyrir jólin til að senda Seyðfirðingum. Ísnum var safnað saman og útdeilt þar um hádegisbilið í dag.

„Ég bjó á Seyðisfirði í 25 ár. Börnin mín eru alin upp þar og ég þekki alla gömlu Seyðfirðingana,“ segir Katrín sem búið hefur á Egilsstöðum síðustu ár.

„Það er búið að vera sárt og erfitt að horfa upp á þessar hamfarir sem fólkið mitt hefur lent í. Ég hef fundið fyrir vanmætti, grátið með fólkinu og legið með tölvuna bíðandi eftir upplýsingum um hvernig staðan er,“ segir Katrín sem eins og aðrir fylgdist með úr fjarska þegar stærsta skriða, sem fallið hefur í þéttbýli á Íslandi, kom á utanverðan kaupstaðinn síðasta föstudag þannig að bærinn var allur rýmdur í kjölfarið.

Vildi geta gert eitthvað

Í byrjun vikunnar sendi Katrín inn innlegg í Facebook-hóp fyrir íbúa Fljótsdalshéraðs þar sem hún spurði hvort einhverjir gætu hugsað sér að gera jólaís fyrir Seyðfirðinga. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

„Ég held að hugmyndin hafi sprottið af einhverri örvæntingu um að vilja gera eitthvað. Manni finnst maður svo vanmáttugur og lítið geta gert.

Ég veit að áföll stela hugarró fólks og þótt fólk sé komið heim er það ekki andlega tilbúið að stússast mikið. Það er utan við sig og ekki með sjálfu sér. Ég vissi líka að ef fólk kæmist heim yrði það mögulega skömmu fyrir jól.

Það er einfalt að henda í einn jólaís og þess vegna setti ég fyrirspurn inn í hópinn. Ég fékk um 60 svör frá fólki sem vildi vera með.“

Jólaís með slaufu og hlý orð

Ísnum var safnað saman í hádeginu við fjöldahjálparmiðstöðina við grunnskólann á Egilsstöðum. Eimskip gaf flutning á honum niður á Seyðisfjörð þar sem honum var dreift í Herðubreið. Við bættust 1000 þristarmýs sem athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson, frá Egilsstöðum, sendi austur.

„Ég bjóst við 60 venjulegum skömmtum en margir sendu stóra skammta, gerður ístertur og létu jafnvel konfektkassa fylgja. Ég er orðlaus yfir að fólk hafi brugðist svona vel við kortér í jól. Fólk lagði natni í þetta, pakkaði inn og hnýtti jafnvel slaufur á auk þess að senda hlý orð.“

Katrín segir að vel hafi gengið að koma út eftirréttunum á Seyðisfirði. Það sem eftir varð fór inn í frysti í Herðubreið en þar ætla Seyðfirðingar að safnast saman í jólamáltíð annað kvöld. „Einhverjir eiga enn í fá hús að vernda og aðrir vilja njóta samverunnar. Þar verður jólastund, það er búið að kaupa kjöt og þá koma ísinn og mýsnar að góðum notum.“

Seyðfirðingar þakklátir fyrir stuðninginn

Katrín fylgdi eftirréttunum niður á Seyðisfjörð. „Það var gott að koma þangað. Ég kveið fyrir fyrir því. Nú hef ég brotið ísinn og að minnsta kostið komið í Herðubreið.“

Hún segir brottflutta Seyðfirðinga og aðra með tauga þangað hugsa hlýtt til bæjarins og bæjarbúa. Katrín kveðst einnig upplifa mikið þakklæti frá Seyðfirðingum.

„Fólk er orðlaust yfir bæði viðbrögðunum sem það fékk þegar það kom upp í Egilsstaði í gistinguna, hve vel var tekið á móti því, fyrir allt sem var í boði og hvernig haldið hefur verið utan um fólkið. Það skiptir mestu máli hvernig fólk stendur saman þegar eitthvað bjátar á. Ég veit að Seyðfirðingar eru þakklátir og vilja skilja kveðjum til nágranna sinna sem og landsmanna allra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.