Reyna að svara fyrirspurnum um tryggingar eins fljótt og kostur er

Starfsmenn Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) verða til viðtals austur á Seyðisfirði á morgun fyrir eigendur fasteigna sem orðið hafa fyrir tjóni í skriðuföllum þar síðustu viku. Forstjóri stofnunarinnar segir að reynt verði að leysa úr málunum eins fljótt og kostur er. Það veltur þó að hluta á hve hratt gengur að vinna nýtt hættumat og skipulag fyrir svæðið.

„Við viljum vita sem fyrst af tjónum til að geta þjónustað ykkur sem best, svarað spurningum og eytt óvissu. Það er skaðlegt að ganga lengi með óvissuna um hve háar bæturnar verða,“ sagði Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands á upplýsingafundi sem haldinn var í dag í kjölfar skriðufallanna.

Allir húseigendur greiða iðgjöld til NTÍ af eignum sínum og miðast upphæðin við brunabótamat. Tryggingafélögin innheimta gjaldið fyrir NTÍ, sem er að fullu í eigu ríkisins. „Hlutverk okkar er að borga þeim sem rétt eiga á bótum. Það er mikilvægt að treysta því að við vinnum hratt og þjónustum ykkur vel,“ sagði hún.

Leggja sig fram um að hafa upp á þeim sem orðið hafa fyrir tjóni

Húseigendur meðal annars sent inn erindi í gegnum vefinn www.nti.is auk þess sem Hulda sjálf, ásamt tveimur öðrum starfsmönnum, verða til viðtals á morgun í þjónustumiðstöð almannavarna sem verið er að opna í félagsheimilinu Herðubreið. Þá verður einnig hægt að óska eftir viðtölum og jafnvel heimsóknum.

Hulda sagði að stofnunin myndi leggja sig fram um að hafa upp á þeim sem ættu rétt á bótum og myndi ganga eftir því með aðstoð sveitarfélagsins og annarra ef þeir hefðu ekki samband að fyrra bragði eða væru ekki í aðstöðu til að tilkynna tjónið sjálfir. Þá geta bótaþegar skipað umboðsmann til að sjá um samskipti við stofnunina fyrir sína hönd.

Hraðinn veltur á nýju skipulagi

Hulda sagðist þegar hafa heyrt í mörgum sem orðið hefðu fyrir tjóni í hamförunum undanfarna viku. Margir spyrji hversu hratt það gangi að fá tjónið bætt. Hún sagðist ekki geta svarað því en bæturnar ráðast meðal annars af því hvort hægt sé að byggja aftur á viðkomandi svæðum. Áður en það er ljóst þarf að staðfesta skipulag, sem er í höndum sveitarfélagsins Múlaþings að fengnu hættumati frá Veðurstofunni. Á fundinum í dag kom fram að þeirri vinnu yrði flýtt.

„Þar til skipulagið liggur fyrir verðum við að vera þolinmóð og vinna saman að því sem hægt er að undirbúa,“ sagði Hulda.

Skoða lánamál

Á fundinum var spurt hvort hægt yrði að seinka afborgunum lána þeirra húseigenda sem misst hefðu hús sín í skriðunum. Hvorki Hulda og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gátu svarað þessu beit en hétu því að kanna málið nánar.

„Það er ekkert sem heimilar slíkt en ég skil að það sé snúið að fá rukkun á láni í svona aðstæðum sem engin fordæmi eru fyrir. Ég get því miður ekkert sagt um þetta, við getum ekki lofað að lánin verði tekin yfir, en þetta þarf að taka til skoðunar,“ sagði Hulda.

Reyna að svara öllu á einum stað

Víðir sagði eftirmála náttúruhamfara langhlaup og brýndi Seyðfirðinga til þolinmæði. „Það er erfitt að fá svör við öllu og ykkur mun finnast það flókið og taka tíma. Til að einfalda það er verið að opna þjónustumiðstöð almannavarna í Herðubreið. Þar á að vera hægt að fá aðstoð í tjónum, sálrænan stuðning, fræðsluefni um hvernig styðja eigi við börn og fleira. Þrír starfsmenn almannavarna unnu í dag við að undirbúa opnunina.

„Þjónustumiðstöðin er til að fólk þurfi bara að koma á einn stað til að fá upplýsingar. Ef svörin liggja ekki fyrir leitar fólkið þar að svörunum. Við verðum í þessu verkefni eins lengi og þarf og gerum okkar besta til að milda áhrifin til lengri tíma. Seyðisfjörður verður aftur öruggur staður til að dvelja og búa á,“ sagði Víðir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.