Reikna með 170 skömmtum austur

Vonast er til að hægt verði að bólusetja um 170 Austfirðinga við Covid-19 veirunni fyrir áramót. Von er á bóluefni austur í vikunni.

„Við vonumst til að fá bóluefni á morgun. Það er ekki alveg öruggt en við fáum það þá í síðasta lagi á miðvikudag. Við byrjum síðan að bólusetja um leið og við fáum efnið,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Fyrsta sendingin af bóluefni við veirunni barst til landsins í morgun. Verið er að fara yfir sendinguna áður en henni verður skipt upp og dreift um landið.

Guðjón segir HSA reikna með 170 skömmtum og verður þá hægt að bólusetja jafn marga einstaklinga og verður drifið í því fyrir áramót. Endurtaka þarf bólusetninguna að 21 degi liðnum.

Í fyrsta forgangshópi er heilbrigðisstarfsfólk í bráðaþjónustu og íbúar hjúkrunarheimila. Guðjón segir að nær allir íbúarnir hjúkrunarheimila á starfssvæði HSA verði bólusettir berist stofnuninni það magn sem vænst er.

Þeir verða bólusettir á hjúkrunarheimilunum sem eru á Vopnafirði, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað. Heilbrigðisstarfsfólk verður bólusett á Egilsstöðum og í Neskaupstað.

Ekkert Covid-smit er á Austurlandi sem stendur né er nokkur í sóttkví.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.