Ólíklegt að viðlíka skriða hafi fallið á svæðinu í þúsundir ára

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands viðurkenna að þeir engan vegin átt von á jafn stórri aurskriðu og féll á utanverðan Seyðisfjörð á föstudag. Engin ummerki hafi verið um slíkt. Enn er verið að meta ástand í hlíðinni ofan bæjarins. Undirbúningur er þegar hafin að vöktunarkerfi fyrir framtíðar.

„Við vanmátum aðstæður því við bjuggumst ekki við skriðu af þessari stærðargráðu,“ sagði Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands á íbúafundi vegna skriðufallanna í dag.

Hún tók þó fram að líkur hefðu verið taldar á smáskriðu á þessu svæði og þess vegna hefði verið búið að fara fólk í einhverjum húsum á skriðusvæðinu við.

Um fimm mínútur fyrir þrjú á föstudag féll gríðarmikil aurskriða á svæðið rétt utan við Búðará á Seyðisfirði. Talið er að fleiri en tíu hús hafi annað hvort gereyðilagst eða skemmst í henni. Búið var að rýma hluta af bænum, bæði innan og utan við Búðarána, en ekki á öllu því svæði sem skriðan féll. Engan sakaði í henni.

Snjór til fjalla, rigning í byggð

Á fundinum í dag fór Harpa yfir aðdraganda stóru skriðunnar, mat á henni sem og næstu skref í ofanflóðavöktum á Seyðisfirði.

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands veita aðgerðastjórnum almannavarna ráðgjöf um aðstæður og mögulega skriðuhættu. Þar starfa sérfræðingar um hættumat fyrir flesta staði á landinu, sem vaktaðir eru auk þess sem snjóathugunarmenn eru á stöðunum. Þannig fékk aðgerðastjórnin á Seyðisfirði send bæði ný kort og upplýsingar frá Veðurstofunni nokkrum sinnum á dag.

Skriðuföllin áttu sér nokkurn aðdraganda í norðaustanátt sem mikil úrkoma fylgdi. Rigningartíðin hófst 9. desember en hámark hennar var dagana 14. -18. desember. Á þeim tíma mældist uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði 569 millimetrar og 733 mm yfir tímabilið allt.

Í upphafi var varað við skriðuföllum og eftir því sem leið á var bætt í viðvaranirnar auk þess sem rýmingar hófust eftir að fyrstu skriðurnar féllu ofan Botnahlíðar og gamla Austurvegar þriðjudaginn 15. desember.

Harpa sagði veðrið hafa verið nokkuð sérstakt því úrkoman hafi fallið sem snjókoma til fjalla en rigning í neðri hluta hlíða. Af þeim sökum hafi ekki verið talin mikil hætta á skriðuföllum ofarlega úr fjöllum. Þá hafi ekki verið talið að mikið vatn streymdi á stallana í Strandartindi, sem gnæfir yfir skriðusvæðið.

Áttu von á minni skriðum

Fylgst var með vatnshæðarmælum á svæðinu. Þeir hækkuðu hratt í byrjun rigninganna og náðu fljótt svipaðri stöðu og í lok í október, en virtust síðan stöðugur. Það var túlkað þannig að vatn rynni frá svæðinu og safnaðist því ekki upp.

„Við töldum ólíklegt að endurkoma yrði á atburðum sem verða á 1000 ára fresti. Við áttum von á skriðum eins þeim fyrstu og jafnvel stærri, líkt og sú sem kom aðfaranótt 18. desember á rýmt svæði,“ sagði Harpa.

Náði djúpt ofan í aldagömul setlög

Hún sagði stóru skriðuna sem féll síðar um daginn hafa verið „annars eðlis“. Á henni ættu eftir að fara fram miklar rannsóknir og mikill lærdómur verða dreginn af henni. Þær athuganir sem farið hafi fram á henni séu aðeins frumathuganir. „Hún virðist hafa náð djúpt ofan í setlög sem legið höfðu óhreyfð í árþúsundir.

Við bjuggumst við skriðum, til dæmis í Búðará og miðuðum viðmæli okkar við það. Hættumat byggir á jarðfræðilegum greiningum og það eru ekki ummerki um forsögulegar skriður á þessum stað. Við teljum ólíklegt að viðlíka skriða hafi fallið á þessu svæði í þúsundir ára.“

Kortéri eftir skriðuna voru send út fyrirmæli um rýmingu nánast alls sunnanverðs Seyðisfjarðar og rúmum hálftíma síðar var öllum fyrirskipað að gefa sig fram í félagsheimilinu Herðubreið. Þar voru allir skráðir og tilkynnt að bærinn yrði rýmdur að fullu. „Eftir að skriðan féll þurftum við að endurmeta aðstæður í skyndi út frá aðstæðum sem ekki hefðu verið uppi í hundruð, eða þúsundir ára. Þess vegna rýmdum við allt í sunnaverðum Seyðisfirði,“ sagði Harpa.

Sprungur ekki ávísun á skriður

Síðan hefur verið reynt að meta líkurnar á frekari skriðuföllum á Seyðisfirði. „Við höfum gætt varúðar og reiknað með bæði vatni og óstöðugum sprungum. Út frá því skilgreinum við hættusvæði. Við leggjum líka reglulega á mat á svæði innan hættusvæðis til að geta ákveðið hvað eigi að forðast og hvað sé hægt að nálgast.“

Á fundinum í dag var töluvert spurt um frekari sprungur, bæði ofan byggðarinnar á því svæði sem fyrstu skriðurnar féllu, en líka miklar sprungur sem ganga út frá stóru skriðunni. Þar virðist jarðvegur töluvert rifinn og fyrir leikmann jafnvel furðulegt að skriðan hafi ekki orðið stærri eða að það svæði hangi enn uppi.

„Við höfum séð sprungur á mörgum stöðum. Skriðusárið er mjög djúpt og út frá því ganga sprungur, eins og oftast gerist í svona skriðum. Þær eru merki um óstöðugleika, að minnsta kosti tímabundinn. Hins vegar er ekki óalgegnt að skriður myndist í stöllum víða um land í vatnsveðri án þess að skriður falli. Við þekkjum víða um land bæði nýjar og gamlar sprungur sem hafa myndast og gróið aftur.

Eftir svona skriður hrynur oft áfram í langan tíma í skriðusárinu en í flestum tilfellum eru þær skriður miklu minni. Það er þó hætta á að sárið verði óstöðugt eitthvað áfram og úr því geti hrunið í rigningartíð. Það þarf vissulega að meta vel aðstæður þar sem sprungur hafa myndast og sjá hvort hreyfingar séu að hætta.“

Svæðið að komast í jafnvægi

Harpa sagði ró vera að færast yfir allt svæðið í sunnanverðum Seyðisfirði. „Mælingar milli daga sýna að hreyfingin hefur hægt á sér, sem eru góðar fréttir. Þá sýna mælingar úr borholum og vatnsritamælum að vatnsþrýstingur fer minnkandi. Tíminn vinnur með okkur meðan ekki rignir og svæðið verður smá saman stöðugra.“

Komið hefur verið upp fleiri vöktunartækjum á svæðinu í kjölfar skriðufallanna auk þess sem svæðið frá Dagmálalæk út í Þófa hefði verið gengið. Þessar mælingar sýna meðal annars hvort skriðuhaugurinn utan við Búðará sé á hreyfingu og út frá því sé hægt að ákveða hvort óhætt sé að fara inn á svæðið. Ekki er búið að fara yfir mælingar dagsins. Rýming verður því áfram í gildi á viðeigandi svæðum til morguns en nýrra upplýsinga er að vænta um hádegi.

Nýr mælibúnaður komi fyrir vorið

Sérfræðingar Veðurstofunnar sögðu að til framtíðar væri mikilvægt að koma upp mælitækjum sem stöðugt sendi frá sér nýjar upplýsingar. Sú vinna er þegar hafin og er von á tillögum fljótlega um hvernig slíkt kerfi fyrir Seyðisfjörð verði og því komið upp í kjölfarið. „Það þarf að koma þessum búnaði upp fyrir vorið,“ sagði Tómas Jóhannesson frá Veðurstofunni.

„Þetta er atburður sem mikilvægt er að læra af og því gera allar þær mælingar sem hægt er á öllu svæðinu. Það er verið að gera áætlanir um rauntímavöktun, búnað sem stöðugt sendir upplýsingar um hreyfingu á jarðvegi og vatnsstöðu í borholum. Við viljum setja upp síritandi mælingar sem klukkutíma fyrir klukkutíma senda upplýsingar um hvort hreyfing sé í hlíðinni. Ég tel að þær myndu bæta öryggið mikið,“ sagði Harpa.

Vinnu við varnarkosti flýtt

Þá er einnig í gangi vinna við mat á varnarkostum fyrir sunnanverðan Seyðisfjörð og sagði Harpa að henni yrði flýtt. Tækniskýrsla um varnarkosti milli Stöðvarlækjar og Búðarár er væntanleg á næstu vikum og frumathugun um varnarkosti í sunnanverðum Seyðisfirði verður skilað í vor. Þá vinni Veðurstofan að því á landsvísu að kortleggja óstöðugar hlíðar og von er á viðvörunarkerfi með litakóða, líkt og í veðrinu, sem næði yfir landssvæði.

Að flýta vinnunni við mat á hættunni ofan Seyðisfjarðar skiptir ekki bara máli upp á hvenær íbúar geta aftur snúið heim til sín, heldur upp á tryggingar þeirra. Hvað fæst út úr þeim veltur meðal annars á hvort óhætt teljist að endurbyggja hús þar sem þau stóðu áður.

Sveitarfélagið Múlaþing mun taka ákvörðun um skipulag svæðisins að fengnum tillögum frá Veðurstofunni. „Það var ákveðið í dag að sá hópur sérfræðinga sem vinnur að þessu skili Múlaþingi umsögn um varnarkosti fyrir þetta svæði sérstaklega. Bráðabirgðaumsögn um stöðuna á svæðinu þar sem skriðan féll verður send bæjarráði milli hátíðanna eða fyrri hluta janúar,“ sagði Tómas.

Á fundinum var einnig spurt út í líkur á skriður í norðanverðum firðinum, úr Bjólfi. Harpa sagði þær ekki vera taldar miklar í þessu veðri ofan þéttbýlisins. Þær ættu alla jafna upptök sín ofarlega í fjallinu og þar hefði snjóað nú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.