Nóg að gera hjá löndunarmönnum: Brjálað að gera í loðnuveiðinni

Austfirsk fiskiðjuver eru að komast á fulla ferð eftir að verkfalli sjómanna lauk á sunnudagskvöld. Löndunarmenn hafa varla undan að þjónusta skipin sem streyma til hafnar.


„Það er brjálað að gera,“ segir Einar Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tandrabergs sem annast löndunarþjónustu í öllum höfnum Fjarðabyggðar.

Þegar Austurfrétt hafði tal af honum um klukkan þrjú voru fjórir starfsmenn fyrirtækisins að störfum á Norðfirði við að landa úr Polar Amaroq og aðrir að landa úr Aðalsteini Jónssyni á Eskifirði. Þá er von á Vilhelm Þorsteinssyni og Beiti til Norðfjarðar síðar í dag eða kvöld. „Ég hef eiginlega ekki tölu á skipunum.“

Veiði íslensku skipanna er reyndar viðbót því starfsmenn Tandrabergs hafa að undanförnu landað úr norskum skipum á Austfjörðum. Þá framleiðir fyrirtækið bretti fyrir frystihúsin þrjú í sveitarfélaginu.

„Það er búið að vera brjálað í þrjár vikur síðan norsku skipin byrjuðu að veiða og það er ekkert breytt núna. Til viðbótar við löndunina smíðum við 2000 bretti á dag. Við erum mjög heppnir að hafa haft vinnu.“

Tekur tíma að jafna sig eftir verkfallið

Mælingar á loðnunni í haust gáfu ekki góð fyrirheit. Í lok janúar kom önnur mæling sem var slæm en þó voru vísbendingar um göngu. Fyrir rúmri viku fannst loks loðna og undanfarna sólarhringa hefur verið mokveiði úti fyrir Hornafirði.

En eftir slæmar mælingar kemur vertíðin aðeins aftan að mönnum. „Það átti ekki að vera nein vertíð og það hefur sett sum fyrirtæki í klemmu því þau voru ekki undirbúin.“

Verkfallið hefur hins vegar bitið á Tandraberg líkt og mörg önnur fyrirtæki sem treysta á sjávarútveginn, þótt norsku bátarnir hafi hjálpað.

„Það tekur einhverja mánuði að jafna sig. Núna er bullandi vinna og það þarf að borga laun um næstu mánaðarmót þótt það sé ekki endilega komið inn fyrir þeim. Staðan er erfið þegar peningastreymið hverfur. Okkur tókst að halda uppi vinnu og þurftum ekki að segja neinum upp.“

„Stærsta kast sem ég hef upplifað“

Mörg austfirsku skipin voru komin aftur til hafnar með fullfermi um sólarhring eftir að þau héldu til veiða. Aðalsteinn Jónsson yngri og eldri mættust við höfnina á Eskifirði um miðnættið, sá yngri var að koma í land en sá eldri að fara út. Áhöfnin á Jóni Kjartanssyni hefur um stundarsakir verið færð á Aðalstein eldri.

Börkur NK kom til Seyðisfjarðar með 2.5000 tonn af loðnu og Beitir kom til Norðfjarðar með 2700 tonn. Börkur náði aflanum í tveimur köstum en Beitir þurfti þrjú. „Við fengum 1.400 tonn í einu kastinu. Það er stærsta kast sem ég hef upplifað,“ er haft eftir Hjörvari Hjálmarssyni, skipstjóra á Berki á vef Síldarvinnslunnar.

Hoffell kom til Fáskrúðsfjarðar í hádeginu með 750 af loðnu sem fékkst í einu kasti. Skipið var aðeins 3,5 tíma á miðunum. Aflinn verður frystur á Japansmarkað.

Venus kom til Vopnafjarðar klukkan hálf sex í morgun. Víkingur er á leiðinni þangað.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.