Nemendur vilja fá „brúnu tunnuna“ í Fjarðabyggð

Ég held að það skipti miklu máli að við förum að fá brúnu tunnuna, en þá þurfum við gráu tunnuna ekki einu sinni lengur, þarf bara að vera flokkað og matur, ekkert almennt,“ segir Marta Lovísa Kjartansdóttir, nemandi í 9. bekk í Grunnskóla Reyðarfjarðar.

 



Nemendur 9. og 10. bekk skólans kynntu í gær niðurstöður nemendastýrða þemaverkefnisins Jörð í hættu?

Verkefnið samþættir náttúru- og samfélagsgreinar í unglingadeild og byggist á fimm þemaþáttum sem eru; loft, nauðsynjar, rusl, vatn og aðgerðir þar sem þau skoða möguleika sína í tengslum við að breyta einhverju til batnaðar í sínu nærumhverfi.


Boðskapurinn skilar sér til nemendanna

„Verkefnið kemur tilbúið en nemendurnir fara svo sínar leiðir að því að afla sér upplýsinga, ákveða úrvinnslu gagna og kynningu á niðurstöðum sínum, segir Guðlaug Árnadóttir, samfélagsfræðikennari.

Guðlaug segir meginmarkmið verkefnisins vera að vekja nemendur til umhugsunar um að við eigum bara þessa einu jörð og hvernig sé hægt að nýta hana sem best og að afkomendur þeirra geti tekið við henni eins og þau taka við henni og jafnvel enn betur.

„Mér finnst umhverfisvakningin vera almenn og þessi hópur er uppnuminn af verkefninu. Ég fór til dæmis í búð um daginn þar sem einn úr hópnum var að vinna á kassa. Ég kom í loftköstum inn í búiðna og greip mér einn plastpoka. Hann benti mér þá kurteislaga á það að það væri hagkvæmara fyrir náttúruna ef yrði mér út um taupoka eða poka sem ég gæti notað aftur og aftur, þannig að þetta skilar sér greinilega til þeirra.“



Tannkremstúban í meiri umbúðunum ódýrari

„Við völdum það viðfangsefni sem okkur fannst áhugaverðast og tókum fyrir vöruumbúðir og flokkun heimilissorps. Við fórum til dæmis í Krónuna og létum eins og við værum að verla í matinn og fyrir heimilið, völdum sömu hluti í sitthvora körfuna, en í aðra settum við þær vörur sem voru mikið innpakkaðar og þær sem voru minna innpakkaðar í aðra,“ segir Marta Lovísa.

Marta Lovísa segir að ýmislegt hafi komið hópnum á óvart, til dæmis það að bæði er hægt að velja um að kaupa nákvæmlega sömu tannkremstúbuna, annars vegar túbuna sjálfa og hins vegar þar sem búið er að pakka henni inni í umbúðakassa að auki. „Hún er meira að segja örlítið ódýrari, þessi sem er meira innpökkuð, það er mjög undarlegt og við bara skiljum það ekki alveg.“



Þarf ekki að vera neitt almennt sorp

Aðapurð hvort heimilissorpið sé flokkað á hennar heimili segir Marta Lovísa; „Já, við flokkum heima, plast, pappír og ál. Við tókum líka viðtal við starfsmann Sorpu sem sagði að flokkunin mætti vera betri hér á Reyðarfirði og það yrði bara að kynna þetta betur. Í rauninni ætti það að vera þannig að græna tunnan ætti að vera eins og almennatunnan og oftar tekin og öfugt.“

Marta Lovísa segir að það skipti miklu máli að „brúna tunnan“ sem tekur við lífrænum úrgangi. „Þá þyrftum við ekki að hafa gráu tunnuna, þá væri bara flokkað og matur, yrði ekkert almennt.“

Hvert skref skiptir máli

Marta Lovísa segir að verkefnið muni skila sér í aukinni umhverfisvitund á allan hátt. „Við tókum könnun á netinu þar sem við spurðum okkur til dæmis hvort við erum 3, 5 eða 10 mínútur í sturtu. Hvort við látum vatnið renna meðan við burstum tennurnar. Einnig hvort við slökkvum ljósin þegar við förum úr herberginu. Það kom okkur mikið á óvart hve margt maður er að gera rangt yfir daginn. Allir þessir litlu hlutir skipta máli og maður verður að hugsa um hvert skref til að vernda náttúruna.“

Nemendur í 9 og 10 bekk Reyðarfjarðarskóla

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.